Körfubolti

Frumleg liðsmynd vekur athygli

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hér má sjá stúlkurnar frá Njarðvík.
Hér má sjá stúlkurnar frá Njarðvík.
Ný liðsmynd frá 10 og 11 ára stelpum sem stunda körfubolta með Njarðvík hefur vakið mikla athygli á Facebook, enda er uppstillingin afar frumleg eins og sjá má hér að ofan. 440 manns hafa smellt á „like-takkann“ við myndina. „Já, maður bjóst nú ekki við þessum viðbrögðum. Maður ætti kannski að snúa sér að listinni,“ segir Bylgja Sverrisdóttir þjálfari stúlknanna.

Bylgja þjálfari nýtur aðstoðar dóttur sinnar, Eyglóar Alexandersdóttur. Bylgja segir að stelpurnar séu mjög duglegar að æfa, en 26 stelpur æfa með flokknum sem þykir vera mjög gott. Hún reynir að beita sér fyrir eflingu kvennakörfubolta og vonast til þess að liðum fjölgi. „Það er mikil gróska í kvennastarfinu hér í Njarðvík, en mér finnst að fleiri félög mættu fylgja þessu eftir. Í fyrra voru tíu lið í minnibolta [11 ára flokkur] kvenna á landinu og þar með voru tvö lið frá Njarðvík tvö lið frá Grindavík og tvö lið frá Keflavík mér finnst það dapurt hversu fá lið tóku þátt,“ segir hún og bætir við:

„Það er frekar fjölgun heldur er hitt hjá okkur og er ég ákaflega stolt af þessu flottu og duglegu stelpum sem eru að æfa hjá okkur. markmikið okkar er að öllum líði vel og þær beri virðingu fyrir hvor annarri og  allar fara glaðar heim af æfingum og hlakki til þeirra næstu.“

Mæðgurnar Bylgja og Eygló þjálfa einnig átta og níu ára stelpur og þar eru 26 stelpur að æfa.

En hver er galdurinn að því að ná inn svona miklum fjölda á æfingar?

„Fyrst og fremst er það að elska börnin sem maður þjálfar og hafa óendanlega gaman að þessu,“ svarar Bylgja.

Hún hefur þjálfað hjá Njarðvík í fjórtán ár og fékk í vor silfurmerki Körfuknattleikssambands Íslands. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×