Körfubolti

Friðrik Ingi þjálfar tvö lið á Króknum í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Friðrik Ingi Rúnarsson og aðstoðarmaður hans Teitur Örlygsson.
Friðrik Ingi Rúnarsson og aðstoðarmaður hans Teitur Örlygsson. Vísir/Stefán
Það verður nóg að gera hjá Friðriki Inga Rúnarssyni í kvöld en hann stýrir körfuboltaliðum milli sjö og ellefu í Síkinu á Sauðarkróki. Friðrik Ingi þjálfar bæði karla- og kvennalið Njarðvíkur í vetur og bæði lið eru að fara að spila við Tindastól í kvöld.

Njarðvík mætir fyrst Tindastóli í 4. umferð Dominos-deildar karla klukkan 19.15 en bæði lið hafa unnið tvo leiki og tapað á móti Íslandsmeisturum KR. Stólarnir veittu KR þó mun meiri keppni en Njarðvíkingar sem hafa þó unnið tvo síðustu leiki sína eftir tapið í DHL-höll þeirra KR-inga.

Strax á eftir karlaleiknum eða klukkan 21.15 mætast kvennalið félaganna í 1. deild kvenna en þau eru bæði ósigruð það sem af er tímabilinu í b-deildinni. Njarðvíkurliðið er búið að vinna tvo fyrstu leiki sína undir stjórn Friðriks Inga, fyrst 43 stiga sigur á sameiginlegu liði FSU og Hrunamanna og svo 40 stiga sigur á KFÍ. Tindastóll vann 20 stiga á sameiginlegu liði FSU og Hrunamanna í sínum eina leik.

Njarðvíkurliðin ferðuðust saman í rútu á Krókinn og munu öruggalega styðja hvort annað í leikjunum á eftir. Seinni leikurinn er ekki búinn fyrr en um ellefu og því kemur rútan ekki heim aftur til Njarðvíkur fyrr en seint í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×