Skoðun

Friðarstyrkur Rótarý

Ólöf Magnúsdóttir skrifar
Rótarýsjóðurinn stendur fyrir umfangsmiklu mannúðar- og menningarstarfi um allan heim, í krafti hinna 1,2 milljóna meðlima Rótarý. Þörfin fyrir þetta góða starf Rótarý er mikil þar sem nýjustu tölur sýna að um 42 milljónir manna eru nú á vergangi eftir að hafa hrakist frá heimilum sínum vegna vopnaðra átaka eða ofsókna, og að 90 prósent fórnarlamba vopnaðra átaka eru óbreyttir borgarar, helmingurinn af þeim börn. Rótarýhreyfingin stendur fyrir fjölda verkefna um allan heim sem beinast að rótum átaka, þar á meðal fátækt, misrétti, aðgengi að menntun og ójafnri dreifingu gæða.

Sem hluti af þessu mikla starfi við eflingu friðar og samvinnu í heiminum, hefur Rótarý staðið fyrir veitingu styrkja til meistaranáms í friðarfræðum síðan 2002. Með friðarstyrknum vill Rótarýsjóðurinn auðvelda áhugasömum eldhugum sem sýnt hafa staðfestu í mannréttindabaráttu og friðaruppbyggingu að stunda nám í friðar- og átakafræðum, og undirbúa þá þannig undir framtíðarstarf við friðaruppbyggingu og úrlausn átaka. Á hverju ári fá allt að 100 einstaklingar þennan veglega námsstyrk til að stunda eins til tveggja ára meistaranám í friðarfræðum, og stendur styrkurinn undir öllum náms-, ferða- og dvalarkostnaði. Hingað til hafa 11 Íslendingar hlotið þennan styrk, og var ég svo heppin að vera friðarstyrkþegi Rótarý 2006-2007. Styrkirnir eru ætlaðir háskólafólki sem hefur lokið fyrstu háskólagráðu og er með reynslu af alþjóðastarfi. Sex viðurkenndir háskólar í Asíu, Ástralíu, Bandaríkjunum og Evrópu eru í samvinnu við Rótarýsjóðinn um að bjóða upp á sérsniðnar námsbrautir í friðarfræðum.

Starfsnám á vettvangi

Friðarstyrkurinn er gríðarlega veglegur og því hvet ég alla áhugasama um að sækja um. Fyrir utan áhugavert nám taka styrkþegarnir þátt í árlegum friðarmálþingum sem Rótarý stendur fyrir í samstarfi við háskólana. Styrkþegarnir fara einnig allir í þriggja mánaða starfsnám á vettvangi til þess að öðlast aukna starfsreynslu. Tækifærin sem bjóðast eftir friðarstyrkinn eru mýmörg að minni reynslu, en nær rakleiðis eftir styrkinn fór ég utan í verkefni á vegum friðargæslu utanríkisráðuneytisins og Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna til Síerra Leóne, Georgíu, Palestínu, Srí Lanka og Pakistans. Námið, og reynslan úr starfsnáminu, nýttist mjög vel í starfi mínu á átakasvæðum, en sérstaklega stendur upp úr sú ómetanlega reynsla á námstímanum að kynnast og vinna náið með öðru fólki hvaðanæva úr heiminum sem hefur brennandi áhuga á friðar- og mannúðarmálum.

Rótarý auglýsir árlega eftir umsóknum um friðarstyrkinn. Nánari upplýsingar má fá á skrifstofu Rótarýumdæmisins á Íslandi og á slóðinni www.rotary.org.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×