Fótbolti

Freyr tilkynnir hópinn fyrir vináttuleik á morgun en England EM-hópinn á mánudaginn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mark Sampson er ekkert að bíða með þetta.
Mark Sampson er ekkert að bíða með þetta. vísir/getty
Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari kvenna í fótbolta, tilkynnir á morgunn hópinn sem mætir Slóvakíu og Hollandi ytra í vináttuleikjum 6. og 11. apríl.

Þetta eru síðustu skráðu vináttuleikir íslenska liðsins áður en kemur að stóru stundinni í Hollandi í júlí þar sem stelpurnar okkar hefja leik á EM á móti Frakklandi 18. júlí.

Degi síðar, 19. júlí, spilar enska landsliðið sinn fyrsta leik á EM á móti Skotlandi og verður enski hópurinn tilkynntur á mánudaginn. Ekki er um að ræða hóp fyrir vináttuleiki eins og hjá íslenska landsliðinu heldur er Mark Sampson, landsliðsþjálfari Englands, búinn að velja þær 23 sem fara á EM í sumar.

Sampson tilkynnir hópinn á æfingasvæði enska landsliðsins á mánudaginn heilum 107 dögum eða þremur mánuðum áður en EM hefst. Ensku stelpurnar, sem eru að fara á sitt níunda Evrópupmót og hafa lengst náð í undanúrslitin, eru auk Skota í riðli með Spáni og Portúgal.

Enska liðið mætir Ítalíu í vináttuleik föstudaginn 7. apríl og Austurríki svo á heimavelli MK Dons 10. apríl. Enginn leikmaður í liðinu þarf að hafa áhyggjur af stöðu sinni í hópnum í þessum leikjum því eins og fyrr segir er þetta EM-hópurinn sem fer til Hollands í júlí.

„Við höfum hugsað um þetta lengi að velja hópinn svona snemma. Þetta er eitthvað sem okkur finnst eiga eftir að skila okkur gríðarlega miklu á svona stórmóti. Við erum búin að vinna með ákveðnum hópi leikmanna í þrjú ár og vitum núna hverjir eru réttu leikmennirnir fyrir þetta verkefni,“ segir Mark Sampson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×