Skoðun

Fréttnæmur framúrakstur

Páll Jakob Líndal skrifar
Mánudagur 1. september – kl. 9.30. Fagur haustmorgunn eftir skarpt áhlaup veðurguðanna deginum áður. Ég ek eftir þjóðvegi 1 um Melasveitina á leið minni frá Reykjavík til Hvanneyrar, nánar tiltekið um svokallaða Skorrholts- og Fiskilækjarmela. Í baksýnisspeglinum sé ég hvar veglegur amerískur jeppi nálgast mig óðfluga. Hann er svartur á lit með gljáandi krómi.

Ökumaðurinn virðist vera karlmaður á góðum aldri. Hann hallar sér makindalega til hliðar í sætinu og heldur annarri hendinni upp að eyranu. Hann slær af þegar aðeins nokkrar bíllengdir eru milli okkar. Dokar ögn við. Bíður svo ekki boðanna. Snarar bílnum, sem er þeirrar gerðar að hann tekur vel við sér, yfir á vinstri akreinina. Framúraksturinn tekur ekki langan tíma.

Ég myndi sjálfsagt ekki muna eftir bílnum, ökumanninum og framúrakstrinum og hefði vafalaust ekki skrifað þennan pistil, ef þetta væri öll sagan. Framúrakstur á þjóðvegum telst varla fréttnæmur, svona almennt séð. En þessi framúrakstur var öðruvísi, því hann fór fram á blindhæð. Á stað þar sem útsýni er takmarkað og tími til aðgerða stuttur ef nauðsyn krefur. Því til áréttingar hefur hvít lína verið máluð á yfirborð vegarins – framúrakstur bannaður. Svo einfalt er það.

Hvað kallast það framferði sem ökumaður umrædds jeppa sýnir í þessu tilviki? Heimska? Sinnuleysi? Kjánagangur? Spennufíkn? Tuddagangur? Mikilmennskubrjálæði? Ábyrgðarleysi? Eigingirni? Skilningsleysi? Vanhæfni? Kæruleysi? Hugsunarleysi? Ranghugmyndir? Spyr sá sem ekki veit. Ég þykist hins vegar vita að sterkbyggður amerískur lúxusjeppi á 110-120 km hraða á klukkustund er eitthvað sem enginn óskar eftir að fá í fangið. Og hvað þá ef rammgerður Volvo á rúmlega 90 km hraða fylgir í kjölfarið.

Fyrir nokkru las ég pistil, þar sem tínd voru til fáein sérkenni Íslendinga. Gamalkunn stef þar á ferðinni, að einu undanskildu: „Íslendingar líta ekki á umferðarreglur sem reglur heldur sem góðlátlegar ábendingar.“ Ég staldraði við þetta þá og ég staldra við þetta núna. Er þetta það sem koma skal?

Ég hvet alla ökumenn til að fylgja þeim lögum og reglum sem gilda í umferðinni. Þannig stuðlum við að betri umferðarmenningu – öllum til heilla.




Skoðun

Sjá meira


×