Innlent

Fréttaskýring: Hvað felst í nýjum samningi um eflingu tónlistarnáms?

Fleiri tónlistarnemar utan af landi munu nú geta stundað námið með það að markmiði að gera tónlistina að atvinnu. fréttablaðið/vilhelm
Fleiri tónlistarnemar utan af landi munu nú geta stundað námið með það að markmiði að gera tónlistina að atvinnu. fréttablaðið/vilhelm
Ríkissjóður tekur yfir kostnað vegna tónlistarkennslu og framlag ríkisins til tónlistarskóla eykst um allt að 250 milljónir króna á ári næstu árin, samkvæmt samkomulagi sem ríkið og Samband íslenskra sveitarfélaga undirrituðu í síðustu viku.

 

Samkomulagið gildir um söngnám á mið- og framhaldsstigi og um annað tónlistarnám á framhaldsstigi. Þannig á að efla tónlistarnám og gera tónlistarnemum kleift að stunda nám sitt óháð búsetu. Ríkissjóður mun leggja 480 milljónir á ári í kennslukostnað í tónlistarskólum. Framlagið mun greiðast í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og sveitarfélögin eiga að tryggja að framlag ríkisins fjármagni kennsluna. Þau eiga einnig að taka yfir ný verkefni frá ríkinu sem nemur 230 milljónum króna. Samkomulagið gildir fyrir næstu tvö skólaár en viðræður um framlengingu fara fram við lok fyrra ársins.

 

Sveitarfélögin bera ábyrgð á tónlistarkennslu á öllum stigum. Sveitarfélögin hafa hins vegar ekki öll burði til að kenna upp á framhaldsstig og því hafa lengra komnir nemendur leitað sérstaklega í skóla til Reykjavíkur, auk þess sem þeir þurfa oft að fara í framhaldsskóla í Reykjavík. Misjafnt er hvort sveitarfélögin hafa styrkt nemendurna til náms í öðrum sveitarfélögum. Því hafa nemendur neyðst til þess að hætta námi. Með nýja samkomulaginu er verið að koma í veg fyrir að slíkt gerist. Það er mjög jákvætt, segir Kjartan Óskarsson, skólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík.

 

„Þessir átthagafjötrar sem hafa viðgengist allt, allt of lengi, þeir virðast vera úr sögunni.“ Kjartan segir samkomulagið örugglega leysa úr vandamálum margra. Skólinn hans hafi orðið mjög fyrir barðinu á þessu og hann segir í mörgum tilvikum sárt að horfa upp á efnilega krakka sem ekki geti haldið áfram í námi.

 

Kjartan segir þó að samkomulagið hafi ekki verið kynnt fyrir stjórnendum tónlistarskólanna. „Við vitum ekki alveg hvernig útfærslan á þessu verður eða hver niðurstaðan verður. Hvorki á þessu né á niðurskurði Reykjavíkurborgar.“ Hann segist hafa reynt að spyrjast fyrir um það en ekki fengið svör, allir hafi verið að bíða eftir samkomulaginu. Hann segir þó að það hafi sést á þeim sem hafi undirritað samninginn að ríkisstjórnin taki málið alvarlega, en menntamála-, fjármála- og innanríkisráðherrar undirrituðu samninginn fyrir hönd ríkisins. „Þetta er mikilvægt skref í rétta átt.“

thorunn@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×