Innlent

Fréttaskýring: Bótagreiðslur ráðherra til Árbótar byggðar á sandi

Skýrsla Ríkisendurskoðunar er áfellisdómur yfir vinnubrögðum við bótagreiðslur til meðferðarheimila, einkum Árbótar í Aðaldal. Þáverandi félagsmálaráðherra er gagnrýndur, sem og fjármálaráðherra fyrir afskipti af málinu. Ákvörðunin um að greiða Árbót 30 milljónir var byggð á sandi.

Fréttablaðið greindi frá því í nóvember að félagsmálaráðherra, sem þá var Árni Páll Árnason, hefði í samráði við Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra samið við meðferðarheimilið Árbót í Aðaldal um bætur fyrir lokun heimilisins. Þetta var gert þvert á vilja Barnaverndarstofu.

Í kjölfar umfjöllunarinnar hóf Ríkisendurskoðun athugun á því hvernig farið hefði verið með alla þjónustusamninga milli Barnaverndarstofu og meðferðarheimila frá árinu 1995.

Forðast ber uppgjörsgreiðslur
Í skýrslunni sem nú hefur verið skilað er farið yfir alla slíka samninga. Langmest er fjallað um uppgjörið við Árbót, sem komið verður að síðar, en einnig stuttlega um eins konar „sanngirnisbætur" til tveggja annarra meðferðarheimila: Torfastaða og Götusmiðjunnar. Þessar þrjár greiðslur þykja þó lítt samanburðarhæfar.

Samkomulag félagsmálaráðuneytis við Torfastaði frá 2005 um 13,5 milljóna greiðslu byggði einkum á því að Torfastaðir hefðu fengið lægri framlög frá ríkinu en önnur sambærileg heimili. Barnaverndarstofa lagðist þó gegn greiðslunni.

Í tilviki Götusmiðjunnar samdi Barnaverndarstofa sjálf um uppgjörið. 13,7 milljónir voru greiddar í laun starfsmanna og 19,9 vegna sannanlegra skulda heimilisins. Ríkisendurskoðun telur þó að sú greiðsla hafi ekki átt stoð í samningum, og skuldirnar hafi þar að auki verið til komnar áður en þjónustusamningurinn við Barnaverndarstofu var gerður.

Um Árbót segir svo að engin rök hafi staðið til að greiða hjónunum sem ráku heimilið bætur.

Almennt er það mat Ríkisendurskoðunar að forðast beri sérstakar uppgjörsgreiðslur sem eiga sér ekki stoð í samningum. Þótt ekkert banni þær og þær geti hugsanlega átt rétt á sér í einhverjum tilvikum verði ekki fullyrt að þessi þrjú heimili hafi átt meira tilkall til þeirra en önnur. „Á þann hátt virðast slíkar greiðslur geta farið í bága við jafnræðissjónarmið. Einnig má velta fyrir sér hvort slíkar greiðslur samræmist þeirri hugsun sem felst í útvistun verkefna með þjónustusamningum þar sem lögmál markaðarins ráða."

"Ég er lögfræðingur sjálfur“Sem áður segir er langmest fjallað um málefni Árbótar í skýrslunni. Meðal þess sem deilt hefur verið um í málinu er hvort uppsagnarákvæðið í þjónustusamningnum, sem ákvörðun Barnaverndarstofu byggði á, hafi verið ótvírætt eða ekki. Það er á þá leið að „komi til ófyrirséðra breytinga sem, að mati annars eða beggja samningsaðila, raski forsendum samnings þessa, getur hvor aðili um sig óskað endurskoðunar eða uppsagnar samningsins". Tiltekið er að slíkur forsendubrestur geti verið að nýting rýma á heimili minnki til muna, eins og gerðist í Árbót.

Steingrímur J. Sigfússon sagði aðspurður að uppsagnarákvæðið væri ekki ótvírætt og því hefðu menn ekki hætt á annað en að semja um bætur. Í tilkynningu frá félagsmálaráðuneytinu sagði „að uppsögn þjónustusamnings á grundvelli forsendubrests hafi verið umdeilanleg".

Þá gagnrýndi Barnaverndarstofa það einnig harðlega að ekki hefði verið leitað eftir áliti ríkislögmanns á því hvort bótaskylda væri fyrir hendi.

Þegar Fréttablaðið spurði Árna Pál Árnason um það atriði í nóvember svaraði hann því til að það hefði ekki þótt nauðsynlegt: „Ég er lögfræðingur sjálfur og get alveg lesið hvað stendur í þessu uppsagnarákvæði. Það er ekki ótvírætt – langt því frá."

Ekki á að þurfa að deila um þaðNiðurstaða Ríkisendurskoðunar um þessi tvö atriði gæti hins vegar ekki verið skýrari.

„Að mati Ríkisendurskoðunar er þetta [uppsagnar]ákvæði í alla staði ótvírætt," segir í skýrslunni. Það hafi auk þess verið nýtt til að segja upp þremur öðrum samningum og því séu „augljós fordæmi" fyrir að beita því.

Eðlilegt hafi verið að segja upp samningnum í ljósi lakrar nýtingar, þótt þolinmæði Barnaverndarstofu hafi reynst heldur lítil undir lokin.

Ríkisendurskoðun telur einnig að það hafi augljóslega verið rangt af ráðuneytinu að leita ekki til ríkislögmanns. „Mikilvægt er að velferðarráðuneyti gangi jafnan úr skugga um að uppsagnir þjónustusamninga séu lögmætar og leiti til ríkislögmanns leiki einhver vafi á um slíkt. Ekki á að þurfa að deila um það," segir í skýrslunni.

Engin málefnaleg rökBótakrafa Árbótarhjóna byggði einkum á þeim rökum að þau hefðu lagt út í mikinn kostnað við endurbætur á húsakosti meðferðarheimilisins að undirlagi Barnaverndarstofu og væru stórskuldug vegna þess.

Fréttablaðið sagði hins vegar frá því á sínum tíma að þessi bótakrafa hefði aldrei verið studd neinum gögnum, starfseminni hefði verið skipt á milli eignarhaldsfélaga sem hefðu ólíka og óljósa skuldastöðu og að ársreikningar hins skuldsetta fasteignafélags hjónanna hefðu aldrei verið lagðir fram í samningaviðræðunum.

Þá hefur Barnaverndarstofa frá upphafi haldið því fram að tugmilljóna leigutekjur sem hjónin greiddu sjálfum sér af framlagi ríkisins hefðu átt að duga vel til að greiða niður umræddar skuldir.

Greining Ríkisendurskoðunar á ársreikningunum leiðir hið sama í ljós. „Af þessum samanburði virðist mega ráða að engin málefnaleg rök hafi legið fyrir því að greiða Árbótarheimilinu sérstaklega vegna skulda eða annars kostnaðar sem rekja mátti til endurbóta eða uppbyggingar á staðnum," segir í skýrslunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×