Skoðun

Frétt sem var engin frétt en hefði getað orðið stórfrétt

Gissur Pétursson skrifar
Í Fréttablaðinu í gær er „frétt“ um afstöðu og tilfinningar einstaklings til Vinnumálastofnunar. Þar fullyrðir viðmælandi blaðamannsins að stofnunin hlunnfari hann um svokallað frítekjumark í atvinnuleysistryggingakerfinu sem leiði til þess að hann hafi minna handa á milli eftir að hann fór í starf samhliða bótum. Eðlilega er hann bæði sár og reiður með þessa niðurstöðu og beinir henni gegn Vinnumálastofnun sem sér um útreikninga og greiðslu atvinnuleysisbóta.

Í lok „fréttarinnar“ er svo vitnað í Unni Sverrisdóttur, sviðsstjóra stofnunarinnar, þar sem hún segir að þessi niðurstaða eigi sér eðlilegar skýringar en hún geti ÞÓ ekki útskýrt málið fyrir blaðamanninum þar sem upplýsingarnar séu persónulegar.

Nú kemur það sem hefði getað verið stórfrétt sem er ef sviðsstjórinn hefði útskýrt og upplýst blaðamanninn um allt sem tengist umsókn einstaklingsins um atvinnuleysisbætur, útreikninga og greiðslur.

Fréttin hefði verið sú, að opinber starfsmaður hefði brotið öll þau lög sem honum ber að virða og fylgja í starfi sínu, má þar af handahófi nefna lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, lög um persónuvernd, stjórnsýslulög auk fjölda annarra laga og reglna.

Eðlilega þykir starfsfólki Vinnumálastofnunar það miður þegar einstaklingar sem leita þjónustu hennar eru jafn ósáttir og raun ber vitni í þessu tilviki en eins og sviðsstjórinn tjáði blaðamanninum þá er umrædd greiðsla rétt samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Hún fór þess jafnframt á leit við blaðamanninn í samtali þeirra, að hann kæmi því á framfæri við viðmælanda sinn að minnsta mál væri að gera honum grein fyrir útreikningnum og útskýra fyrir honum hvers vegna greiðslan væri svo lág þessi mánaðamót. Hann gæti síðan ráðið því hvort hann færi með þá útskýringu til blaðamannsins.

Eitt var alveg ljóst að starfsmaðurinn hafði engar heimildir til að gera blaðamanninum grein fyrir útreikningnum og einkafjármálum viðmælanda hans.




Skoðun

Sjá meira


×