Innlent

Frelsissvipting í Hlíðunum: Ákærðu hlutu allir skilorðsbundna dóma

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ríkharð og Davíð á leið í aðalmeðferð í héraðsdómi í ótengdu máli.
Ríkharð og Davíð á leið í aðalmeðferð í héraðsdómi í ótengdu máli. Vísir/GVA
Ríkharð Júlíus Ríkharðsson, Davíð Fjeldsted (áður Davíð Freyr Rúnarsson) og Magnús Sigurjón Einarsson hlutu allir skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir aðkomu sína að frelsissviptingarmáli í Hlíðarhverfinu í Reykjavík í desember árið 2010.

Ríkharð hlaut tveggja og hálfs árs dóm, Davíð tveggja ára dóm og Magnús Sigurjón eins árs dóm. Dómar Ríkharðs og Davíðs, sem eiga brotaferil að baki, eru skilorðsbundnir til þriggja ára en dómur Magnúsar til tveggja ára. Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur á öðrum tímanum í dag.

Helltu upp í manninn þvottaefni

Mennirnir voru sakaðir um að hafa í bakherbergi á veitingastaðnum Monte Carlo við Laugaveg í Reykjavík veist að öðrum karlmanni á fertugsaldri og krafið hann um peninga, slegið og sparkað ítrekað í höfuð og líkama hans og svipt hann frelsi sínu í því skyni að þvinga hann til að láta fé af hendi.

Dómurinn hefur ekki verið birtur en í ákærunni segir að þeir hafi síðan flutt manninn í íbúð í Hlíðahverfi í Reykjavík þar sem þeir slógu hann ítrekað með hnefum, hnúajárnum, kylfu og helltu upp í hann þvottaefni.

Sjá einnig:Þorðu ekki að kæra vegna tengsla undirheima við lögreglu

Þá hafi þeir brennt hann með sígarettu og hótað að klippa af honum fingur og eyru. Á meðan þessu stóð hafi þeir afklætt manninn og haldið honum fjötruðum og kefluðum yfir nótt í baðkeri í íbúðinni.

Maðurinn var látinn laus síðdegis 20. desember eftir að faðir hans samþykkti að leggja eina milljón króna inn á bankareikning eins ákærða. Áður en hann var látinn laus hótuðu þremenningarnir honum að ef hann kærði brotin til lögreglu yrði honum og fjölskyldu gert mein. Þar á meðal að honum og systur hans yrði nauðgað.

Greiða feðgunum bætur

Þremenningarnir voru dæmdir til að greiða eina milljón króna í bætur ásamt vöxtum til mannsins sem sviptur var frelsi sínu. Þá þurfa þeir að greiða föður hans eina og hálfa milljón króna ásamt vöxtum.

Ríkharð greiðir verjanda sínum rúma milljón í málsvarnarlaun, en Magnús og Davíð greiða sínum lögmönnum rúmlega 600 þúsund krónur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×