Innlent

Framkvæmdir hefjast við sjúkrahótel LSH

Linda Blöndal skrifar
Framkvæmdir við nýtt sjúkrahóteli Landspítalans munu hefjast nú í apríl. Um er að ræða fjögur þúsund fermetra byggingu á lóð spítalans sem mun kosta á annan milljarð.

Um 945 milljónir króna eru veittar á fjárlögum til nýrra bygginga spítalans, þar á meðal sjúkrahótels. Útboðsgögn fyrir lóðaframkvæmdina verða kynnt þann 15.mars næstkomandi og endanlegt útlit byggingarinnar um miðjan apríl sem áætlað er að verði tekin í notkun í byrjun árs 2018. Gert er ráð fyrir því að kostnaður við byggingu sjúkrahótelsins í heild verði að minnsta kosti einn og hálfur milljarður.

Sjúkrahótelið verður fjögurra hæða og 77 herbergja. Það mun rísa norðanmegin við kvennadeild spítalans og vestan við aðalinngang spítalans, svokallaða kringlu. Á lóðinni eru nú bílastæði. Innkeyrslan að spítalanum mun færast til norðurs, nær Barónsstíg.  Þá verður innangengt beint frá húsi kvennadeildarinnar inn á sjúkrahótelið um undirgöng.

Hlutafélag um byggingar Landspítalans

Opinbert hlutafélag sem nefnist Nýr Landsspítali eða NLSH var stofnað árið 2010 utan um framkvæmdir nýbygginga spítalans, þar á meðal hátæknispítalans sem er meðferðarkjarni spítalans.

Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum verður með sjúkrahótelinu hægt að stytta legutíma inni á spítalanum og er hóteldvölin hluti af sjúkrahúslegunni. Hægt verður að færa fólk fyrr af deildum spítalans og rýma þannig til fyrir veikari sjúklingum. En á hótelinu verða sjúklingar sem enn þurfa umönnun hjúkrunarfólks. Það mun einnig nýtast aðstandendum eins og veikra barna af Barnaspítalanum sem verður steinsnar frá. 

Verulegur sparnaður

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra sagði í fréttum Stöðvar 2 í kvöld að mikil hagræðing verði með sjúkrahótelinu sem spari spítalanum fjármuni. „Þetta er flókið og stórt verk og hagræðingin sem reiknuð er inn af sjúkrahótelinu er verulegur hluti þeirra 2,3 milljarða króna sem ætlaður er að spara við að sameina sjúkrahúsið, starfsemi þess, undir einum hatti,“ segir hann.

„Sömuleiðis verður að hafa það í huga líka að meðferðarkjarninn, sem er kjarninn í starfseminni, spítalinn sjálfur að stórum hluta, það tekur eitt til tvö ár að ljúka hönnuninni á honum,“ segir hann. „Það ber að hafa í huga að þegar við tökum við þessu verki, þá er ekki nema um 25 prósent, eða einn fjórði, af hönnuninni lokið. Það er eftir langur ferill í því máli.“

Kristján segir aðspurður um hvort rétt sé að byrja á þessum hluta að það sé fullkomalega réttlætanlegt að byggja starfsfólki og sjúklingum á Íslandi nútímalega og boðlega aðstöðu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×