Innlent

Frambjóðendur þræða vinnustaði og verslunarmiðstöðvar

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
MYND/Eyþór
Frambjóðendur þeirra flokka sem bjóða sig fram í komandi Alþingiskosningum hafa síðustu vikurnar þrætt vinnustaði og verslunarmiðstöðvar í von um að heilla kjósendur.

Í Valhöll, höfuðstöðvum Sjálfstæðisflokksins, tóku frambjóðendur flokksins í dag á móti nemendum við Fjölbrautaskólann í Ármúla og ræddum við þá um kosningarnar. Guðlaugur Þór Þórðarson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður, fékk þó nokkrar spurningar frá nemendunum. Kosningabaráttu fylgir því að hitta fjölda fólks og segist Guðlaugur ekki hafa tölu á hversu mörgum hann hafi heilsað með handabandi síðustu vikurnar. Hann hefur orðið var við vaxandi áhuga á kosningunum síðustu dag. „Mér finnst núna áhuginn á þessum kosningum virkilega vera að vakna,“ segir Guðlaugur.

Í matsal Neyðarlínunnar, Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og Landhelgisgæslunnar í Skógarhlíð ræddu frambjóðendur Vinstri-grænna við kjósendur í dag. Kolbeinn Óttarsson Proppé, frambjóðandi Vinstri-grænna, segir kjósendum ófeimna að spyrja frambjóðendurna spjörunum úr.

„Alls konar spurningar. Allt frá af hverju ætti ég að treysta ykkur pólitíkusarnir ykkar, það er aldrei hægt að treysta ykkur og yfir í bara, sem er mjög fínt að fá líka sko, og yfir í skýrt afmarkaðar spurningar um stefnu okkar eða hérna einhverja þætti í samfélagsmálum sem brennur á fólki,“ segir Kolbeinn.

Í göngugötunni í Mjóddinni ræddi Nichole Leigh Mosty, oddviti Bjartrar framtíðar í Reykjavíkurkjördæmi suður, við kjósendur. Hún segir flesta hafa tekið sér vel. „Ég náttúrulega á heima hérna og það er mjög auðvelt að tala við fólk sem er hér og hlusta og það er kannski það mikilvægasta sem gerist þegar við erum úti á vettvangi,“ segir Nichole.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×