Skoðun

Frábært frumkvæði frá hagræðingarnefnd ríkisstjórnarinnar!

Vísindamenn skrifa skrifar
Nú eru liðnar um tvær vikur frá birtingu tillagna hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar um aukna framleiðni og hagræðingu í ríkisrekstri. Eins og við má búast hefur verið töluverð umræða í samfélaginu um tillögurnar og þær vakið athygli. Það er virkilega ánægjulegt að sjá að í tillögunum er að finna hugmyndir sem íslenskir vísindamenn hafa barist fyrir um áratuga skeið – um eflingu og sameiningu samkeppnissjóða til rannsókna- og vísindastarfs:

„32. Samkeppnissjóðum verði fækkað og þeir stækkaðir og efldir þannig að hlutfall milli fastra fjárveitinga til rannsókna og samkeppnissjóða verði jafnara en nú er. Unnið verði að því að50% fjármagns fari í gegnum samkeppnissjóði (tengist einnig iðnaðar- og viðskiptaráðherra).

33. Rannsóknarstofnunum verði fækkað og skipulag og rekstur þeirra einfaldaður frá því sem nú er með það að augnamiði að ná fram rekstrarhagræði og auknum gæðum í rannsóknar- og vísindastarfi. “

(Feitletrun er áhersluaukning höfunda).

Vekur von í brjósti

Það vekur því von í brjósti um að fallið verði frá fyrirætlan ríkisstjórnarinnar að skera harkalega niður í fjárveitingum til samkeppnissjóðanna næstu þrjú árin eins og boðað er á blaðsíðu 244 í fjárlagafrumvarpi ársins 2014, sem lagt var fyrir Alþingi í lok september. Þar er kveðið á um að fallið verði frá 200 milljóna króna Markáætlun á næsta ári og stigvaxandi niðurskurð til þriggja ára um samtals 1 milljarð króna á fjárveitingum til Tækniþróunarsjóðs og Rannsóknasjóðs. Vegna þeirrar þriggja ára skuldbindingar sem t.d. felst í styrkveitingu úr Rannsóknasjóði mun þetta þýða að þegar í stað verði um 40% niðurskurður á nýjum styrkveitingum úr sjóðnum, sem aftur þýðir að a.m.k. 40 störf ungra vísindamanna hverfi úr nýsköpunarsamfélaginu strax á næsta ári.

Djarfar tillögur

Þessar djörfu tillögur hagræðingarnefndar ríkisstjórnarinnar um að efla verði hér samkeppnissjóðina til þess að gera íslenskar grunnrannsóknir skilvirkari og samkeppnishæfari hljóta því að vera samfélaginu öllu fagnaðarefni. Grunnrannsóknir eru nefnilega forsenda framfara í nútímasamfélagi, og vegna þeirra jákvæðu áhrifa sem þær hafa á hagvöxt hefur verið lögð mikil áhersla á sterka stöðu samkeppnissjóða hjá þeim þjóðum sem standa fremst í víglínunni hvað varðar lífsgæði og hagvöxt í heiminum. Á tímum samdráttar hefur samkeppnissjóðum margra landa verið hlíft við niðurskurði vegna beinna hagvaxtarhvetjandi áhrifa grunnrannsókna.

Það er því ánægjulegt að sjá að ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks virðist gera sér grein fyrir þessu eins og fram kemur í tillögum hagræðingarhópsins. Þar sem því var lofað að margar hagræðingartillagnanna kæmu strax til framkvæmda við vinnslu fjárlaga hljótum við að gera ráð fyrir að fallið verði frá boðuðum niðurskurði á fjárframlögum til samkeppnissjóðanna í því frumvarpi til fjárlaga sem lagt verður fyrir Alþingi í næstu viku.

 

Erna Magnúsdóttir

rannsóknarsérfræðingur við Læknadeild HÍ

Margrét Helga Ögmundsdóttir

nýdoktor við Læknadeild HÍ

Þórarinn Guðjónsson

prófessor við Læknadeild HÍ

Eiríkur Steingrímsson

prófessor við Læknadeild HÍ

Hans Guttormur Þormar

framkvæmdastjóri sprotafyrirtækisins Lífeindar






Skoðun

Sjá meira


×