Körfubolti

Frábær vika Kristófers Acox varð enn betri í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristófer Acox.
Kristófer Acox. Vísir/Anton
Kristófer Acox átti frábæra viku með Furman í bandaríska háskólaboltanum og frammistaða hans skilaði íslenska landsliðsmanninum útnefningunni leikmaður vikunnar í Southern Conference.

Þetta er í fyrsta sinn á tímabilinu sem Furman-liðið á leikmann vikunnar en Kristófer var valinn bestur í leikjum spiluðum frá 17. til 23. janúar.

Kristófer Acox fór fyrir Furman-liðinu í tveimur sigurleikjum liðsins á móti East Tennessee State og Virginia Military Institute.

Kristófer var með 18,5 stig, 7,0 fráköst og 2,5 stolna bolta að meðaltali í sigrunum á ETSU (75-62) og VMI (89-72). Hann nýtti alls 17 af 19 skotum sínum utan af velli sem gerir magnaða 89 prósent skotnýtingu.

Kristófer var með 19 stig og 8 fráköst á móti East Tennessee State þar sem hann nýtti 9 af 10 skotum sínum.

Kristófer var síðan með 18 stig og 6 fráköst á móti East Tennessee State þar sem hann nýtti 8 af 9 skotum sínum.

Það hefur verið frábært að fylgjast með frammistöðu Kristófers á lokaári sínu með Furman-háskólanum og það er ljóst að hún boðar gott fyrir íslenska landsliðið þar sem hann verður í stóru hlutverki í sumar.

Kristófer er með 12,8 stig og 7,0 fráköst í leik en hann hefur staðið sig enn betur í leikjum við liðin í Southern Conference þar sem hann er með 16,4 stig og 7,6 fráköst í leik. Hann er auk þess með 68 prósent skotnýtingu sem er frábær tölfræði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×