Skoðun

Frá Kverkfjöllum til Tambocor

Sigurpáll Ingibergsson skrifar
Þú ert með gáttaflökt“, sagði leiðsögumaðurinn frábæri, hjartaskurðlæknirinn Tómas Guðbjartsson, eftir að hafa tekið púlsinn minn í 1.122 metra hæð í Kverkfjöllum.

Ég var í hópi 20  göngumanna í Ferðafélagi Íslands ásamt þremur fararstjórum í stórbrotinni en krefjandi gönguferð, laugardaginn 18. júlí. Tveir aðrir læknar voru í hópnum og staðfestu greininguna.

Ég varð eitt spurningarmerki. Hafði aldrei heyrt þetta orð, gáttaflökt, fyrr. Síðustu brekkur Kverkfjalla tóku mjög á skrokkinn. Ég kófsvitnaði og mér leið illa. Svimaði og reikaði í spori með hættulega jöklabrodda undir gönguskónum og ísöxi aftan á bakpokanum. Það var eitthvað að. Skrokkurinn hafði ekki áður látið svona í krefjandi fjallgöngum.

Tómas útskýrði í fljótu bragði hvað væri að og ég var sendur niður í Sigurðarskála með einum fararstjóra. Gufubólstrar úr nýju og heitu Holuhrauni blöstu við ásamt sótsvörtum Dyngjujökli og skemmtu okkur á niðurleiðinni yfir Kverkjökul.

Í stuttu máli er gáttaflökt algeng hjartsláttartruflun sem orsakast af truflun á rafleiðni í leiðslukerfi hjartans. Það á uppruna sinn í hjartagáttum. Ekki er vitað hvað veldur gáttaflökti en nokkrum dögum áður hafði ég verið stunginn af geitungi í hægri olnbogann.

Um kvöldið daginn eftir var ég skráður inn á bráðadeild Sjúkrahússins á Akureyri. Þar var greiningin staðfest og ég fékk úrvals þjónustu hjá einstöku starfsfólki. Ég fór í rannsóknir og hjartaómun sem komu vel út og var sendur í rafvendingu sem tókst vel.

Hjartað hélt takti næstu daga en ég var óöruggur, leið misjafnlega og upplifði það eins og að hafa ósprungna sprengju inni í mér. Því ef hjartað er ekki í takti þá er hætta á blóðtappamyndun sem getur haft skelfilegar afleiðingar í för með sér, heilablóðfall. Nokkrum dögum síðar hrökk ég úr takti. Hafði fengið mér orkudrykk.

Daginn eftir heimsótti ég Hjartagátt Landspítalans og þar var ég greindur aftur með gáttaflökt. Langur biðlisti var í rafvendingu og ég þurfti að fá blóðþynningarlyf og blokker. Var tjáð af hjartalæknum sem voru yfirhlaðnir krefjandi verkefnum að ég yrði kallaður inn eftir fjórar vikur.

Ég beið spenntur í þrjár vikur eftir innköllun en vonaðist til að hrökkva í takt af sjálfsdáðum. Loks kom bréfið frá spítalanum og ég tilbúinn í stuðið. En þá kom fram að það væri langur biðlisti og ég gæti átt von á innköllun eftir einn til þrjá mánuði!

Best var að fylgjast með hjarta­óreglunni þessa tvo mánuði með því að taka púlsinn. Hann segir: Tikk, tikk, tikk, tikk, eyða, tikk, tikk, tikk, eyða, tikk, tikk?… svona gengur þetta.

Biðlistar í boði stjórnvalda

Eftir tveggja mánaða taktleysi fannst loks laus tími fyrir rafvendingu. Starfsfólk Hjartagáttar veitti fullkomna þjónustu og kom hjartanu í takt.

Hjartalæknar eru vinsælir eins og rokkstjörnur, með einkarekna þjónustu á einkastofum. Þremur mánuðum eftir greininguna fékk ég loks tíma. Þá var ég dottinn úr takti í þriðja sinn. Ég var settur á hjartalyfið Tambocor sem hentar mínu hjartalagi vel og hef gengið í takt síðan. Að vísu þurfti ég að leggjast inn á hjartadeild fyrstu dagana og vera undir eftirliti, svo magnað er lyfið.

Er einkavæðing betri? – Ef ég hefði þurft að bíða eftir mjólk í jafn langan tíma, þrjá mánuði, þá hefði hún súrnað.

Ef einstaklingur svarar ekki lyfjagjöf þá er til lausn. Brenna fyrir aukaboðleiðir í hjarta. En vandamálið er biðlisti upp á tvö ár. Takist vel til, þá er hægt að losna við lyf. Öflug forvörn og fjárfesting í mannauði.

Hér á landi vantar lækna. Það vantar hjúkrunarfólk. Það vantar fjármagn og skilvirkt heilbrigðiskerfi. Það vantar góða stjórnmálamenn. Það vantar rétta forgangsröðun og kærleik. Þegar reynir á heilbr1igðiskerfið eru biðlistarnir langir. Þeir eru í boði stjórnvalda. Þau bera ábyrgð á stöðunni. Fagfólkið á spítalanum gerir sitt besta.

Við skulum vona að okkur Íslendingum takist að endurreisa heilbrigðiskerfið og hafa sambærilegt heilbrigðiskerfi og aðrar norrænar þjóðir búa við til að vernda okkar mikilvægustu eign, heilsuna.

Skrifað á fyrsta degi endurreisn.is




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×