Sport

Fötluð íþróttakona neyddist til að pissa á sig í lest: „Ég var niðurlægð“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Anna Wafula Strike var niðurlægð og fékk afsökunarbeiðni.
Anna Wafula Strike var niðurlægð og fékk afsökunarbeiðni. vísir/getty
Anna Wafula Strike, 47 ára gömul fötluð íþróttakona frá Bretlandi, segist hafa verið svipt virðingu sinni og niðurlægð þegar hún neyddist til að pissa á sig í lest sem skorti klósett fyrir fatlaða.

Auk þess að vera afreksmaður í hjólastólaspretti er Wafula Strike mikil baráttukona fyrir réttindum fatlaðs fólks í Bretlandi. Hún hlaut MBE-orðu breska heimsveldisins frá Elísabetu drottningu fyrir tveimur árum fyrir störf sín í þágu fatlaðra.

Í viðtali við breska ríkisútvarpið segir Wafula Strike frá þriggja tíma langri lestarferð með lest frá fyrirtækinu CrossCountry train. Þegar henni varð mál var henni sagt að yfirgefa lestina næst þegar hún stoppaði en þegar að því kom var ekkert starfsfólk nálægt til að hjálpa henni úr lestinni og á lestarpallinn.

„Ég var svipt virðingunni og ég var niðurlægð,“ segir Wafula Strike sem neyddist til að pissa á sig þar sem hún fékk enga hjálp.

„Ég komst á endanum á klósett fyrir fatlaða þar sem ég úðaði vatni á mig og reyndi að líta almennilega út. Ég var niðurbrotin, í sárum og vandræðaleg.“

Talsmaður CrossCountry train fordæmir atvikið og segir að þetta sé í fyrsta sinn sem eitthvað þessu líkt hefur komið upp. Wafula Strike fékk formlega afsökunarbeiðni frá framkvæmdastjóra fyrirtækisins.

Hlusta má á bút úr viðtalinu hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×