Innlent

Forvitin hrefna kom svo nálægt hvalaskoðunarbát að það hefði verið hægt að klappa henni

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hrefnan var í og við hvalaskoðunarbátinn úti við Gróttuvita í rúman hálftíma í gærkvöldi.
Hrefnan var í og við hvalaskoðunarbátinn úti við Gróttuvita í rúman hálftíma í gærkvöldi.
Erlendir ferðamenn sem voru í hvalaskoðun í gærkvöldi úti við Gróttuvita eignuðust nýjan vin ef svo má segja þegar ung hrefna kom og heilsaði upp á þau.

„Þetta var svona um níuleytið, við komum þarna, ég drap á vélunum og hún var þarna í og við og í kringum bátinn. Hún hefur verið forvitin um hvað við værum að gera þarna og bara viljað heilsa upp á okkur,“ segir Borgar Björgvinsson, skipstjóri á hvalaskoðunarbátnum Rósinni frá Special Tours og bætir við að þetta hafi verið mögnuð upplifun. Ferðamennirnir níu sem voru um borð hafi skiljanlega verið himinlifandi með hvalaskoðunina.

„Hún kom svo nálægt að ég hefði getað klappað henni en ég vildi nú ekki gera það. Hún var þarna að sniglast í kringum okkur í rúman hálftíma og synti í kringum bátinn og undir hann,“ segir Borgar.

Hann segir það óalgengt að hrefnur komi svona nálægt hvalaskoðunarbátum eins og sú forvitna gerði í gærkvöldi. Þá segir Borgar það mjög misjafnt hversu margir hvalir sjáist í hverri ferð.

„Eins og í gær í þessari ferð sáum við sex hrefnur. Oftast sjáum við eitthvað, eins og til dæmis núna í júlí þá höfum við séð hrefnur í 98% ferða hjá okkur.“

Í myndbandinu hér að neðan sem Borgar tók má sjá hrefnuna þar sem hún heilsar upp á ferðamennina í hvalaskoðuninni í gær.

Eitt magnaðasta sem ég upplifað í hvalaskoðunni.

Posted by Borgar Björgvinsson on Tuesday, 28 July 2015



Fleiri fréttir

Sjá meira


×