Erlent

Forsprakki stærstu torrentsíðu heims handtekinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Artem Vaulin er talinn hafa hagnast verulega á rekstri Kickass Torrents.
Artem Vaulin er talinn hafa hagnast verulega á rekstri Kickass Torrents. Vísir/Getty
Yfirvöld í Bandaríkjunum birtu í dag ákærur gegn forsprakka Kickass Torrents, sem er stærsta torrentsíða í heimi. Úkraínumaðurinn Artem Vaulin, var handtekinn í Póllandi í dag en honum er gert að hafa dreift höfundaréttarvörðu efni að verðmæti minnst eins milljarða dala, eða um 122 milljörðum króna.

Hann er meðal annars einnig sakaður um peningaþvætti.

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna segir að Kickass Torrents sé í 69. mest sótta vefsvæði í heiminum og þar sé kvikmyndum, tónlist og mörgu öðru dreift ólöglega. Rúmlega 50 milljónir opna síðuna á hverjum mánuði. Síðan hefur verið opin frá árinu 2008.

Samkvæmt Washington Times munu yfirvöld í Bandaríkjunum sækjast eftir því að fá Vaulin framseldan frá Póllandi.

„Til þess að komast undan lögreglu er Vaulin talinn hafa notast við vefþjóna víða um heim og fært veffang síðu sinnar vegna lögsókna. Handtaka hans í Póllandi sýnir hins vegar að netglæpamenn geta hlaupið, en þeir geta ekki falið sig frá armi laganna,“ er haft eftir Leslie Caldwell, aðstoðar dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, á vef AFP fréttaveitunnar.

Lokað hafði verið á hýsingu síðunnar í Bretlandi, Írlandi, Ítalíu, Danmörku, Belgíu og Malasíu. Tekjur síðunnar vegna auglýsingasölu eru taldar hafa verið á milli 12,5 til 22,3 milljónir dala á ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×