Innlent

Forseti Íslands ætlar ekki að veita viðtöl vegna Icesave

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hyggst ekki veita nein viðtöl um niðurstöðu EFTA-dómstólsins í Icesave-málinu. Forsetinn lítur svo á að hann hafi tjáð sig nóg um málið í aðdraganda þess.

Forsetinn reyndist einn ötulasti baráttumaður íslenskra hagsmuna á erlendri grundu í Icesave-málinu. Bæði vegna fyrri ákvörðunar sinnar að synja Icesave II staðfestingar og Icesave III einnig.

Meðal annars mætti hann í viðtal hjá Jeremy Paxman á BBC eftir fyrri synjunina, en Paxman þessi þykir afar harður í horn að taka og hafa ófáir stjórnmálamenn breskir verið teknir í bakaríið í settinu hjá honum.

Viðbragða Ólafs við niðurstöðu EFTA-dómstólsins í síðustu viku hefur verið beðið með nokkurri eftirvæntingu, enda var forsetinn mikill örlagavaldur í málinu.

Ólafur hefur engin viðtöl veitt þrátt fyrir beiðnir þar að lútandi frá íslenskum og erlendum fjölmiðlum. Fréttastofan fékk þær upplýsingar á skrifstofu forsetans að hann myndi ekki koma í viðtal vegna málsins. Þar á bæ fengust þær skýringar að forsetinn hefði tjáð sig nóg um málið í aðdraganda þess, engin ástæða væri til að veita sérstök viðtöl um niðurstöðu EFTA-dómstólsins í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×