Fótbolti

Forseti FIFA vill núna 48 lið á HM með 16 þriggja liða riðlum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gianni Infantino vill stækka öll mót.
Gianni Infantino vill stækka öll mót. vísir/getty
Gianni Infantino, forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, hefur lagt til að  heimsmeistarakeppnin í fótbolta verði stækkuð úr 32 liðum í 48 og keppt verði í 16 þriggja liða riðlum.

Meðlimir í framkvæmdarnefn FIFA fengu þrjár breytingartillögur á HM inn á borð til sín sem verða teknar fyrir á fundi í næsta mánuði. Fjórða tillagan er að halda mótinu óbreyttu með 32 liðum.

Infantino, sem vill líka stækka heimsmeistarakeppni félagsliða í 32 liða mót, er mjög hrifinn af þeirri hugmynd að bæta við 16 liðum á HM. Hann hefur áður lagt til að 32 liða útsláttarkeppni fari fram áður en hin 16 liðin sem unnu sér inn þátttökurétt mæti til leiks. Sú hugmynd fékk engan hljómgrunn.

Ef breytingarnar verða samþykktar verður HM að 48 liða móti frá og með 2026. Efstu tvö liðin í þriggja liða riðlunum kæmust þá áfram í 32 liða úrslit.

Breytingartillagan um 40 liða HM sem Infantino hefur einnig verið mjög hrifinn af verður sömuleiðis tekin fyrir á fundi FIFA í næsta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×