Innlent

Foreldrar í Laugardalnum safna undirskriftum fyrir gönguljós

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Sigríður Ásta Klörudóttir, Vanda Sigurgeirsdóttir og Jóna Björk Sigurjónsdóttir þora ekki að senda börnin sín ein yfir götuna og standa því fyrir undirskriftasöfnun fyrir gönguljósum.
Sigríður Ásta Klörudóttir, Vanda Sigurgeirsdóttir og Jóna Björk Sigurjónsdóttir þora ekki að senda börnin sín ein yfir götuna og standa því fyrir undirskriftasöfnun fyrir gönguljósum. vísir/anton
„Ég lenti í því sjálf fyrir nokkrum árum að það munaði hársbreidd að það væri keyrt á mig og tvö börn þegar ég var að ganga yfir Reykjaveginn,“ segir Vanda Sigurgeirsdóttir, ein foreldranna sem safna undirskriftum fyrir að fá gönguljós við götuna.

Í að minnsta kosti 25 ár hefur verið umræða um þörfina á gönguljósum við Reykjaveginn, götuna sem er á milli annars vegar Laugardalsins, laugarinnar og World Class og hins vegar Laugarnesskóla. Mikill fjöldi barna fer yfir götuna á degi hverjum en síðustu ár hefur umferðin aukist mikið vegna fólks á leið í líkamsrækt, ferðamanna á hótelum og gistiheimilum í hverfinu og þéttingu byggðar.



Ingi Garðar Davíðsson, sonur Sigríðar, hefur hjálpað mömmu sinni við söfnun undirskrifta síðustu daga en gönguljós eru mikilvæg fyrir skólabörnin sem þurfa að fara yfir götuna á leið í skóla, skólasund og á æfingar.mynd/sigríður
„Bílstjórinn sem keyrði næstum á mig var í símanum og ég gekk 200 metra spöl hér í gær og á leiðinni sá ég átta í símanum. Hættan sem skapast vegna þess, aukin umferð og aukinn hraði valda því að gatan er slysagildra og það þarf að gera eitthvað í því áður en það verður alvarlegt slys. Það er bara tímaspursmál,“ segir Vanda, sem ásamt tveimur öðrum mæðrum í hverfinu gengur í hús þessa dagana.

Hverfisbúar geta einnig skrifað sig á listana sem eru hjá fisksalanum í hverfinu. Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. „Það hafa margir hugsað um þetta lengi en nú er orðin knýjandi nauðsyn.“

Hverfisbúar munu afhenda borgarstjóra listana á næstu dögum.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 22. júní 2016




Fleiri fréttir

Sjá meira


×