Innlent

Fólksflóttinn að verða meiri en uppúr krísunni 2008

Jakob Bjarnar skrifar
Gylfi Magnússon: Brottflutningur íslenskra ríkisborgara í ár stefnir í að verða meiri en í krísunni 2008 til 2012.
Gylfi Magnússon: Brottflutningur íslenskra ríkisborgara í ár stefnir í að verða meiri en í krísunni 2008 til 2012. visir/valli
Landflótti stefnir í að verða meiri en var í krísunni 2008 til 2012.

Þetta segir Gylfi Magnússon dósent við Háskólann og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra. Gylfi furðar sig á framsetningu Hagstofunnar á sínum eigin tölum, því þetta er nákvæmlega það sem lesa má úr þeim. En ekki, líkt og fyrirsögnin segir til um: „Engar marktækar breytiningar á flutningsjöfnuði fyrstu þrjá ársfjórðunga 2015“.

Jónas Kristjánsson fyrrverandi ritstjóri er einn þeirra sem hefur einnig efast um þessa niðurstöðu.

„Þetta er stórfurðuleg „leiðrétting“ og eiginlega ekki hægt að skilja hvers vegna Hagstofan lætur hafa sig út í að senda svona nokkuð frá sér - því að hennar eigin tölur tala skýru máli,“ segir Gylfi á Facebook-síðu sinni.

Þremenningarnir hafa enga ástæðu til að fagna tölum frá Hagstofunni, nema síður sé, að sögn Gylfa.
Gylfi tengir við frétt Vísis þar sem segir af því að þeir Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra og Sigurður Már Jónsson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, hafi fagnað nýjum tölum frá Hagstofunni, en af þeim mátti ráða að landflótti væri ekki meiri en verið hefur. Nokkur umræða hefur verið um þetta atriði að undanförnu. En, þetta segir Gylfi að megi heita sérkennileg leiðrétting:

„Frá 1961 hafa brottfluttir með íslenskt ríkisfang verið að meðaltali 0,18% af fólksfjölda á hverju ári. Árið 2013 var hlutfallið komið niður í 0,01% en hefur síðan farið ört hækkandi. Í fyrra var það 0,23%, þ.e. meira en í meðalári og miðað við fyrstu þrjá ársfjórðunga þessa árs verður hlutfallið 0,46% í ár - sem er tala sem áður hefur yfirleitt bara sést í efnahagskreppum. Brottflutningur íslenskra ríkisborgara í ár stefnir í að verða meiri en í krísunni 2008 til 2012.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×