Innlent

Fólk sniðgangi lambakjöt

Gylfi Arnbjörnsson.
Gylfi Arnbjörnsson.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, mótmælir harðlega nýrri viðmiðunarverðskrá Landssambands sauðfjárbænda, en í henni er gert ráð fyrir 25 prósenta hækkun á verði til bænda. Gylfi segir þetta algjörlega úr takti við aðrar hækkanir í samfélaginu og hvetur landsmenn til að mótmæla með því að hætta að kaupa lambakjöt.

„Neytendur eiga að svara þessu með því að hætta að kaupa lambakjöt. Það gengur ekki að bændur séu með svona svikamyllu.“

Gylfi segir þetta sýna að nauðsynlegt sé að fella niður innflutningsvernd á lambakjöti. Ófært sé að bændur fari með afurðina til annarra landa þegar verðið er hagstætt og framkalli skort innanlands og hækki verðið á vörunni hérlendis.

Sindri Sigurgeirsson, formaður Landssambands sauðfjárbænda, segir að ekki sé sjálfgefið að hækkunin leiti út í verðlagið. Hagræðing hafi orðið í slátrun og innistæða sé fyrir hærra verði til bænda. Þá áréttar hann að um nokkurs konar væntingavísitölu bænda sé að ræða sem sláturleyfishafar fari ekki endilega eftir. Hann þorir þó ekki að lofa því að hækkunin komi ekki fram í verðlagi.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, segir hækkunina vondar fréttir fyrir íslenska neytendur. Hún segist ekki fá séð að hærra afurðaverð erlendis eigi að endurspeglast á innlendum mörkuðum.

„Ég hef fullan skilning á því að aðföng og ýmis kostnaður bænda hafi hækkað mikið, en það hefur svo sannarlega gerst hjá heimilunum í landinu líka.“

Þórunn segir hækkanirnar úr takti við þau fyrirheit sem gefin hafi verið í kjarasamningum undanfarið.

Undir það tekur Gylfi. Hann segir fráleitt að bændur velti kostnaði yfir á neytendur og segir þetta minna á samráð á grænmetismarkaði í Öskjuhlíð um árið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×