Innlent

Flugferðamet slegið á Keflavíkurflugvelli í gær

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Met var slegið á Keflavíkurflugvelli í gær þegar 188 flugferðir voru farnar um flugvöllinn en farþegarnir voru þrjátíu og tvö þúsund. Talið er að tæpar sjö milljónir farþega fari um völlin á árinu sem nærri þrefalt meira en þegar mest var fyrir hrun.

„Fyrir tíu árum voru stærstu dagarnir okkar sjötíu ferðir á dag. Það voru níutíu ferðir árið 2006 í góðærinu,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia. Hann segir að nokkrir dagar séu eftir í sumar sem verði svipaðir.

Líkt og sjá má hefur fjöldi flugferða rúmlega tvöfaldast. Fjöldi farþega hefur hins vegar aukist mun meir enda vélarnar stærri nú en þá. „Vélarnar taka tvöfaldan fjölda af farþegum miðað við það sem þær gerðu áður.“

Vöxturinn hefur verið gríðarlegur undanfarin ár. Líkt og áður segir var toppurinn árið 2006 sjötíu vélar í lok júlímánaðar. Árið eftir taldi stærsti dagurinn 93 vélar en síðan varð samdráttur næstu tvö ár. Árið 2012 var stærsti dagurinn 97 vélar en síðan þá hefur metið fallið á ári hverju. Í fyrra fóru 147 vélar um völlinn þegar mest var.

„Þetta hefur verið gríðarlega hröð þróun og allt hefur vaxið ótrúlega hratt. Kollegar okkar á flugvöllum í kringum okkur eru nánast gapandi yfir þessum tölum,“ segir Guðni.

Viðtalið við Guðna má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×