Innlent

Flugdólgurinn gæti fengið 6 ára fangelsisdóm

Flugvél Icelandair tekur á loft.
Flugvél Icelandair tekur á loft.
Maðurinn sem áreitti farþega um borð í flugvél Icelandair á fimmtudag gæti átt yfir höfði sér sex ára fangelsi. Icelandair hefur tekið ákvörðun um að kæra manninn fyrir að ógna öðrum farþegum og áhöfninni, og þar með öryggi flugsins.

Í 168. grein almennra hegningarlaga segir að „ef maður raskar öryggi járnbrautarvagna, skipa, loftfara, bifreiða eða annarra slíkra farar- eða flutningatækja, eða umferðaröryggi á alfaraleiðum [...] þá skal hann sæta fangelsi allt að 6 árum."

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að maðurinn yrði kærður á næstu dögum og að félagið telji að það sé réttast að lögreglan rannsaki málið.

Manninum hefur einnig verið meinað að fljúga með Icelandair um óákveðinn tíma.

Líklegt er að lögreglan á Suðurnesjum rannsaki háttsemi mannsins um borð í flugvélinni í síðustu viku.


Tengdar fréttir

Farþegum brugðið þegar flugdólgurinn var handtekinn

Fólki í vél Icelandair, sem flaug frá Íslandi til New York í gær, var mjög brugðið eftir að flugdólgur var handtekinn í vélinni. Maðurinn hafði verið með allmikil læti þegar hann var loks yfirbugaður af áhöfn vélarinnar og farþegum.

Flugdólgurinn gæti átt yfir höfði sér fangelsisdóm

Maður sem var tjóðraður niður vegna óláta um borð í flugvél Icelandair á leið til New York í Bandaríkjunum í gær gæti átt yfir höfði sér háa fjársekt og jafnvel fangelsi í Bandaríkjunum. Hann á líka á hættu að vera meinað um að koma þangað aftur, sagði í fréttum Bylgjunnar klukkan 2. Maðurinn er íslenskur.

Flugdólgur yfirbugaður af farþegum hjá Icelandair

Karlmaður var yfirbugaður af farþegum og áhöfn flugvélar Icelandair sem var á leiðinni til New York. Mynd af manninum hefur vakið heimsathygli en þar sést að hann hefur hreinlega verið límdur við sæti sitt.

Flugdólgurinn sendur á spítala

Íslenski flugdólgurinn sem var reyrður niður í sætið sitt þegar hann flaug með vél Icelandair til New York í gærkvöldi, var sendur á spítala eftir skýrslutöku. Samkvæmt upplýsingafulltrúa á JFK flugvellinum, Ron Marsico, var tekin skýrsla af dólginum eftir að hann lenti á flugvellinum í nótt. Þá þegar varð ljóst að maðurinn var svo drukkinn að það þótti réttast að senda hann á spítala.

Sjónarvottur fullyrðir að dólgurinn hafi verið íslenskur

Sjónarvottur fullyrðir að maðurinn sem var yfirbugaður í flugvél Icelandair í gærkvöldi, hafi verið íslenskur. Sá var hér á landi um áramótin ásamt félögum sínum, en vinur hans, sá sem tók myndina sem fer eins og eldur um sinu á netinu - og er meðal annars ein sú vinsælasta á reddit.com núna - segir að hann hafi verið raunverulega hræddur við manninn.

Flugdólgurinn í New York: Farþegar neituðu að bera vitni

Fréttir af íslenskum flugdólg sem var yfirbugaður og bundinn niður um borð í flugvél Icelandair í fyrradag eru meðal þeirra mest lesnu í mörgum erlendum fjölmiðlum. Talið er að maðurinn hafi ekki verið kærður þar sem farþegar neituðu að gefa skýrslu um ógnandi tilburði hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×