Erlent

Flokkalandslagið í Ísrael

Isaac Herzog, ,eiðtogi Verkamannaflokksins sósíaldemókrataflokks, sem hefur stutt tveggja ríkja lausnina.
Isaac Herzog, ,eiðtogi Verkamannaflokksins sósíaldemókrataflokks, sem hefur stutt tveggja ríkja lausnina.
Ísraelska flokkalandslagið hefur breyst nokkuð á síðustu árum. Lengi vel voru Verkamannaflokkurinn og Likud-bandalagið stærstu stjórnmálaflokkar landsins. Fylgi beggja flokka hefur dalað töluvert nokkur undanfarin kjörtímabil en báðir eru að rétta eitthvað úr kútnum aftur.

Verkamannaflokkurinn er genginn í kosningabandalag með Hatnuah, flokki Tsipi Livni sem áður var leiðtogi Kadima-flokksins og þar áður í Likud-flokknum þangað til Ariel Sharon klauf sig út úr honum árið 2005. Kosningabandalag Verkamannaflokksins og Hatnuah nefnist Síonistabandalagið. Samkvæmt skoðanakönnunum má reikna með að flest atkvæði fari til þessara tveggja framboða, báðum hefur undanfarið verið spáð 22 til 27 þingsætum á 120 manna löggjafarþingi landsins.

Yisrael Beiteinu, hægri flokkur hins rússnesk-ættaða Avigdors Liberman, virðist ekki vera á neinu sérstöku flugi nú en er spáð 4 til 7 þingsætum.

Til tíðinda má telja að þriðja stærsta aflið gæti orðið kosningabandalag arabaflokkanna, með 12 til 13 þingsæti, en á svipuðu róli eru miðjuflokkurinn Yesh Atid og hægriflokkurinn Heimkynni gyðinga. Þá er nýjum miðjuflokki, Kulanu, spáð 7 til 10 þingsætum.

Tveir flokkar rétttrúaðra gyðinga, Shas og UTJ, virðast hins vegar samanlagt ætla að fá 10 til 17 þingsæti og geta því áfram haft veruleg áhrif á stefnu nýrrar ríkisstjórnar, jafnvel þótt þeir fái ekki ráðherrasæti í stjórninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×