Viðskipti innlent

Fleiri viðskiptavinir Arion notuðu app en netbanka

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Höskuldur Ólafsson segir notkun á appi bankans vera að aukast.
Höskuldur Ólafsson segir notkun á appi bankans vera að aukast. Vísir/Stefán
Innskráningar í app Arion banka voru fleiri í janúar síðastliðnum en innskráningar í netbankann.

Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion, segir engu að síður að heimsóknir í netbankann standi í stað. Breytingin stafaði af því að fólk væri í auknum mæli að nýta sér appið. Höskuldur segir að hann hafi búist við því að þróunin yrði þessi, en hún hefði orðið hraðari en hann bjóst við.

Aukin áhersla bankanna á stafræna þjónustu er einn liðurinn í því að draga úr rekstrarkostnaði bankanna. Í kynningu á uppgjöri fyrsta fjórðungs kemur fram að laun séu í takti við síðustu fjórðunga en starfsmönnum hjá móðurfélaginu hafi haldið áfram að fækka á tímabilinu.

Eins og fram kom í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins, í gær nam hagnaður Arion banka á fyrstu þremur mánuðum ársins 14,9 milljörðum króna en var 2,9 milljarðar á sama tíma í fyrra. Afkoman er óvenjugóð og markast af óreglulegum liðum. Þar hafa mest áhrif einskiptisatburðir eins og skráning og sala bankans á hlutum í fasteignafélaginu Reitum og alþjóðlega drykkjaframleiðandanum Refresco Gerber.

Höskuldur segir að regluleg starfsemi bankans hafi líka gengið vel. „Arðsemi reglulegrar starfsemi er tæplega 10% á tímabilinu. Við höldum áfram að vinna að því að styrkja grunnrekstur bankans,“ sagði Höskuldur í afkomutilkynningu frá bankanum.- jhh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×