Innlent

Fleiri aldraðir telja heilbrigðisþjónustu hafa versnað

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Landspítalinn við Hringbraut.
Landspítalinn við Hringbraut. vísir/vilhelm
Fleiri aldraðir nú en áður, eða 45 prósent, telja heilbrigðisþjónustu hafa versnað á undanförnum árum, sé miðað við sambærilegar mælingar árin 2007 og 1999. Þetta kemur fram í nýrri könnun á vegum velferðarráðuneytisins um hagi og líðan aldraðra á Íslandi árið 2016.

Alls töldu 16 prósent þjónustuna hafa batnað, sem er sambærilegt og árið 2012 þegar hlutfallið var 17 prósent. Það var hins vegar 43 prósent árið 2007. Eldri borgarar voru í könnuninni í ár nokkuð sáttir  við aðgengi að þeirri heilbrigðisþjónustu sem þeir þurfa á að halda en um þrír af hverjum fjórum, eða 74 prósent, taldi aðgengið mjög eða frekar gott. Því verri heilsu sem fólk telur sig hafa því lægra hlutfall telur aðgengi að heilbrigðisþjónustu gott.

Könnunin er gerð í fjórða sinn, en hún var fyrst gerð árið 1999, svo árið 2006 og í þriðja sinn árið 2012. Tekið var 1800 manna tilviljunarúrtak 67 ára og eldri úr þjóðskrá og spurningar lagðar fyrir í síma eða með netkönnun. Alls svöruðu 1028 könnuninni.

258 þúsund krónur að jafnaði – tekjur kvenna lægri en karla

Ráðstöfunartekjur þeirra sem tóku þátt í könnuninni voru að jafnaði 258 þúsund krónur á mánuði. Tekjur kvenna voru 24 prósent lægri en karla og þá voru ráðstöfunartekjur heimila kvenna töluvert lægri, en meðalráðstöfunartekjur heimila aldraðra voru 404 þúsund krónur á mánuði. Þær voru að jafnaði lægri eftir því sem fólk var eldra en það er talið skýrast af því að þeir búa í meira mæli einir.

„Nokkuð misræmi var á milli þeirra ráðstöfunartekna sem fólk hafði og hve háar tekjur það taldi sig þurfa. Til að mynda töldu 84 prósent þeirra sem höfðu 200 þúsund eða minna í ráðstöfunartekjur á mánuði að þau þyrfti hærri tekjur en þau hafa úr að spila, en sama gilti um 40% þeirra sem voru með ráðstöfunartekjur á bilinu 201 300 þúsund. Athygli vekur að tekjuþörf er minni með hærri aldri,“ segir í niðurstöðum könnunarinnar.

Fleiri hafa áhyggjur af fjárhag

Jafnframt segir að fjölgað hafi í hópi þeirra sem hefur áhyggjur af fjárhag en um þriðjungur svarenda taldi sig stundum eða oft hafa fjárhagsáhyggjur. Árið 2012 höfðu 26 prósent aldraðra sömu áhyggjur og 22 prósent árið 2006.

Fjárhagsáhyggjur voru í beinu sambandi við aldur – því eldri því færri höfðu áhyggjur. Einnig höfðu þeir heilsuminni mun oftar áhyggjur en þeir sem voru við góða heilsu, en 44 prósent þeirra sem mátu heilsufar sitt mjög eða frekar slæmt höfðu sundum eða oft fjárhagsáhyggjur samanborið við 21 prósent þeirra sem töldu heilsufar sitt mjög gott. Lítill hópur aldraðra hefur einhvern tímann á síðustu fimm árum frestað því að fara til læknis og/eða kaupa lyf af fjárhagsástæðum, eða 5 til 6 prósent.

„Stærsti hópurinn sem hefur frestað því að kaupa lyf eða fara til læknis er ógiftur og sá sem vill stunda launaða vinnu. Þetta er í samræmi við niðurstöður um fjárhagsáhyggjur, en þessir hópar hafa í meira mæli áhyggjur af fjárhag en aðrir hópar aldraðra,“ segir í niðurstöðunum, en lesa má skýrsluna í heild hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×