Innlent

Fjórðungur umsækjenda hefur fengið hér vernd

Sæunn Gísladóttir skrifar
Flóttamenn hafa ekki verið fleiri í Evrópu síðan í heimsstyrjöldinni síðari. Mikill fjöldi hefur komið yfir Miðjarðarhaf til Grikklands.
Flóttamenn hafa ekki verið fleiri í Evrópu síðan í heimsstyrjöldinni síðari. Mikill fjöldi hefur komið yfir Miðjarðarhaf til Grikklands. Fréttablaðið/AFP

Það sem af er ári hafa 25 prósent þeirra sem sótt hafa um vernd á Íslandi fengið vernd, viðbótarvernd og dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Aldrei hafa jafn margir sótt um vernd á Íslandi á einu ári. Það sem af er ári hafa borist 309 umsóknir.

Á fyrstu tíu mánuðum ársins hefur fjöldinn rúmlega tvöfaldast frá því á sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram á vef Útlendingastofnunar. Langflestir þeirra sem hafa sótt um vernd á Íslandi það sem af er ári koma frá Albaníu, eða 34 prósent. Umsóknir frá Albaníu, Kósóvó og Makedóníu nema samanlagt allt að helmingi allra umsókna.

Tæplega 10 prósent umsækjenda koma frá Sýrlandi, 6 prósent frá Írak, 4 prósent frá Íran og 2 prósent frá Palestínu. Samsetning hælisleitenda á Íslandi með tilliti til þjóðernis er mjög frábrugðin samsetningu hælisleitenda í öðrum Evrópuríkjum, en þar eru einstaklingar frá Sýrlandi og öðrum stríðshrjáðum ríkjum í Mið-Austurlöndum stærstu hóparnir. Aldrei hefur jafn mörgum verið veitt vernd og það sem af er þessu ári.

Hinn 24. nóvember höfðu 76 einstaklingar fengið vernd hérlendis, fyrir utan kvótaflóttafólk. Á tímabilinu frá 1. janúar og til og með 24. nóvember var synjað um vernd í 38 prósentum tilvika. Umsóknir frá ríkisborgurum Alabaníu eru 45 prósent þeirra umsókna sem hefur verið synjað á árinu og tæplega tvær af hverjum þremur synjunum eru tilkomnar vegna umsókna frá ríkisborgurum Albaníu, Kósóvó og Makedóníu samanlagt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×