Innlent

Fjórðungur kennara og foreldra andvígur heimanámi

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Í síðustu viku skrifaði Jenný Heiða Zalewski Facebookfærslu vakið hefur mikla athygli.



Í færslunni sagðist hún hafa tekið upplýsta ákvörðun að losa dóttir sína undan þeirri kvöð sem heimanám er. Því sé ekkert heimanám á hennar heimili og skólastjórinn styðji ákvörðunina. „Í staðinn lesum við saman, spilum eða horfum á fyndin videó á youtube. Barnið mitt er lífsglaðara og samskiptin okkar betri. Skora á fleiri foreldra að gera hið sama,” skrifar Jenný.



Síðasta vetur lærði dóttir Jennýjar heima á hverjum degi sem olli henni kvíða og álagi. „Það var ekki fyrr en í lok skólaárs að ég varð að játa mig sigraða. Ég hugsaði bara með mér að ég gæti ekki tekið þátt í þessu, að þvinga barnið mitt í þetta eins og ég þvinga hana ekki í tómstundir sem hún vill ekki vera í. Mér finnst að sex tíma vinnudagur í skóla ætti að duga til að læra þá hluti sem hún þarf að læra.“



Jenný hefur engar áhyggjur af því að dóttirin dragist aftur úr í námi. „Ég hugsa bara að ef hún er úthvíld og líður vel þá verður einfaldlega auðveldara fyrir hana að komast í gegnum námsefnið á skólatíma.“

Jenný Heiða ákvað að hætta að láta barnið sitt læra heima.vísir/skjáskot


Jenný segist hafa fengið mjög jákvæð viðbrögð við færslunni. Það kemur henni þó á óvart hversu fáir hafi tekið á skarið og ákveðið að sleppa heimanámi. Enda standi í skólastefnu Reykjavíkurborgar að heimanám eigi aldrei að vera íþyngjandi eða skapa vandamál inni á heimilinu.



„Ég held að það skipti bara máli að við séum í samskiptum við skólann og foreldrar geti fundið sína leið með barnið sitt í skólanum. Að það fái bara að njóta sín,“ segir hún.

Viðtal við Jennýju má sjá í spilaranum hér að ofan. 



Samkvæmt könnun Capacent frá árinu 2013 þar sem foreldrar grunnskólabarna voru spurðir um heimanám eru tæplega tuttugu prósent foreldra sammála Jennýju og finnst heimanám of mikið. Aftur á móti finnst tæplega tólf prósent heimanám of lítið. 69 prósent finnst það hæfilegt.



Viðhorf kennara til heimanáms virðist vera svipað. Í könnun Kennarasambandsins 2016 kemur fram að um 24 prósent kennara eru andvígir heimanámi og um sextíu prósent eru hlynntir því.



Varaformaður Félags grunnskólakennara, segir að þegar skóladagurinn var styttri hafi tilgangur heimanáms verið að auka þjálfun heima fyrir. Nú sé skóladagurinn aftur á móti mun lengri og margir mjög uppteknir í daglegu lífi. „Þá er minni tími með börnunum og sá tími fer í heimanámið. Það eru ekki allir sammála að það eigi að vera tíminn því það er stundum svoldið argaþras í kringum það þegar allir eru þreyttir,“ segir Guðbjörg Ragnarsdóttir.



Henni finnst ekki að það eigi að leggja heimanám niður enda sé enn tilgangur með því. Það búi til brú milli heimili og skóla svo foreldrar viti hvað sé að gerast í skólanum. Einnig sé það mikilvægt upp á áframhaldandi nám. „En hugsanlega þurfum við að taka samtalið sem samfélagið, viljum við hafa það og af hverju og hvernig ætlum við þá að sinna því,“ segir Guðbjörg.



Útgangspunkturinn í Öldutúnsskóla er að heimanám sé hvati en ekki kvöð. Valdimar Víðisson skólastjóri bendir á að engar rannsóknir sýni að hefðbundið heimanám bæti námsárangur og því sé lögð áhersla á þrautir og verkefni í Öldutúnsskóla þar sem nemendur hugsa út fyrir kassann. Hann hefur fengið góð viðbrögð frá foreldrum.



 

Nemendur í MR segja nauðsynlegt að grunnskólinn undirbúi þau fyrir það mikla heimanám sem er í menntaskóla.vísir/skjáskot
Í Hagaskóla hittum við krakka í 9. og 10. Bekk sem sögðu heimanám vera frekar lítið en sum höfðu þá skoðun að ekkert heimanám ætti að vera í grunnskóla. Í MR voru nemendur ekki sammála þeirri skoðun. Þau segja stökkið frá grunnskóla yfir í menntaskóla vera mikið og því nauðsynlegt að krakkar læri námstækni og að skipuleggja sig í gegnum heimanám í grunnskóla.



Yngvi Pétursson, rektor í Menntaskólanum í Reykjavík, er með sterkar skoðanir á málinu.



„Það á að vera heimanám. Það á að vera heimanám á öllum skólastigum. Það er hluti af náminu,“ segir hann.



Umfjöllun um heimanám og viðtöl við móðurina, nemendur og skólafólk má sjá í spilaranum hér að ofan. 



„Foreldrar hringdu áður inn og kvörtuðu undan of miklu heimanámi. Nú hringja þeir inn og segja heimanámið vekja áhuga barnanna,“ segir hann.



Valdimar segir of mikla áherslu lagða á að börnin klári ákveðin verkefni heima til að halda vikuáætlun í stað þess að verkefnin séu til þess ætluð að bæta við skilningi við námsefnið sem þau læra í skólanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×