Erlent

Fjölskylduharmleikur í Kaupmannahöfn

Birta Björnsdóttir skrifar
Um klukkan 10 í morgun hóf vopnaður maður skotárás í dómshúsinu við Hestemøllestræde í nágrenni Ráðhústorgsins í Kaupmannahöfn. Einn er látinn og annar lífshættulega slasaður eftir árásina, var annar maðurinn skotinn inni í byggingunni, en hinn fyrir utan hana.

Notaði árásarmaðurinn afsagaða haglabyssu við verknaðinn en hann var yfirbugaður af lögreglunni á Vester Voldgade, þangað sem hann flýði eftir árásina.

Í dönskum fjölmiðlum er það fullyrt að orsök árásarinnar sé hatrömm forræðisdeila en fyrirtaka í forræðis- og umgengnismáli fráskilinna hjóna átti að fara fram í dag.

Þar er einnig greint frá því að árásarmaðurinn sé afi barnsins sem deilan stendur um, í móðurætt, hinn særði sé faðir barnsins og hinn látni lögmaður hans.

Barnið sem forræðisdeilan snýst um, var ekki á staðnum. Heldur ekki móðir barnsins, sem sent hafði föður sinn í sinn stað.

Lögreglan lokaði stórum hluta miðborgarinnar í kringum Ráðhústorgið eftir skotárásina.


Tengdar fréttir

Afi skaut barnsföður dóttur sinnar

Maðurinn sem lést í skotárásinni í dómshúsi í Kaupmannahöfn í morgun var lögmaður, en skilnaðar- og umgegnismál var tekið fyrir þegar árásin var gerð. Faðir barns særðist lífshættulega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×