Innlent

Fjöldi vísindamanna gagnrýnir þingmenn

Eiríkur Steingrímsson, prófessor. 37 vísindamenn frá níu rannsóknarstofnunum hafa sent bréf til Alþingis þar sem þingsályktunartillaga um bann við útiræktun á erfðabreyttum lífverum er harðlega gagnrýnd. Tillagan sögð full af rangfærslum og lýsa vanþekkingu.
Eiríkur Steingrímsson, prófessor. 37 vísindamenn frá níu rannsóknarstofnunum hafa sent bréf til Alþingis þar sem þingsályktunartillaga um bann við útiræktun á erfðabreyttum lífverum er harðlega gagnrýnd. Tillagan sögð full af rangfærslum og lýsa vanþekkingu.

Harðort bréf hefur borist Alþingi frá 37 vísindamönnum þar sem gerðar eru alvarlegar athugasemdir við þingsályktunartillögu um bann við útiræktun erfðabreyttra lífvera. Flutningsmenn frumvarpsins eru átta frá þrem stjórnmálaflokkum; Vinstri grænum, Hreyfingunni og Samfylkingunni.

Tillaga þingmannanna er sögð full af rangfærslum og lýsa algjörri vanþekkingu þeirra á málaflokknum. Í bréfinu er sagt að augljóst sé að höfundar hafi ekki faglega þekkingu á viðfangsefninu og mjög takmarkaðan skilning á líffræði, þróunarfræði, erfðafræði eða eðli erfðabreyttra lífvera.

Í tillögunni er lagt til að starfshópur á vegum ríkisstjórnarinnar undirbúi lagabreytingar sem varða útiræktun á erfðabreyttum lífverum. Slík ræktun fari þá í kjölfarið einungis fram inni í lokuðum gróðurhúsum eða tilraunastofum.

„Það stenst nánast ekkert sem fylgir þessari tillögu. Þetta er eiginlega bara allt rangt," segir Eiríkur Steingrímsson, prófessor við Læknadeild HÍ og tals­maður hópsins. „Það er ótrúlegt að þingmennirnir hafi látið þetta frá sér."

Eiríkur segir að um alvarleg mistök sé að ræða í tillögunni og hópurinn sé alfarið á móti henni, enda óþörf.

„Við teljum að það þurfi ekki að banna erfðabreyttar lífverur, þar sem þær eru gríðarlega mismunandi eftir tegundum, erfðabreytingu og öðru slíku," segir Eiríkur. „Við erum nú þegar með lög og reglur um þessi mál og starfandi nefnd sem fer yfir hvert tilfelli. Það er ekki hægt að vinna með erfðabreyttar lífverur án þess að fá leyfi." Eiríkur bendir einnig á að útiræktun sé aldrei leyfð nema nema það séu sterk, vísindaleg rök fyrir því að hún hafi ekki áhrif á umhverfið.

Þráinn Bertelsson, þingmaður VG, er einn flutningsmanna og svaraði hann bréfi vísinda­mannanna í gærdag. „Þakka ykkur innilega fyrir að leyfa okkur flutningsmönnum að njóta leiðsagnar ykkar og yfirburða vísindaþekkingar. Það fegursta við vísindin er þekking laus við hroka," segir Þráinn í bréfi sínu.

Vísindamennirnir 37 starfa hjá Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Akureyri, Landbúnaðarháskóla Íslands, Hólaskóla, Matís, Matvælastofnun, Biopol og Íslenska erfðagreiningu. Enginn þeirra vinnur að rannsóknum sem miða að því að sleppa erfðabreyttum lífverum út í umhverfið og enginn þeirra á beinna hagsmuna að gæta.

sunna@frettabladid.is





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×