Handbolti

Fjöldi lykilmanna frá | Óli Gúst ekki með

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Það er að mörgu að huga hjá Aroni fyrir EM.
Það er að mörgu að huga hjá Aroni fyrir EM. mynd/vilhelm
Mikið hefur verið rætt og ritað um meiðslavandræði íslenska karlalandsliðsins í handbolta sem æfir nú fyrir Evrópumeistaramótið sem fram fer í Danmörku í janúar. Landsliðið var með opna æfingu í hádeginu sem margir lykilmanna gátu ekki tekið þátt í.

Það er óhætt að segja að mikið sé að gera hjá læknateymi landsliðsins. Hver leikmaðurinn á fætur öðrum er í meðhöndlun lækna og sjúkraþjálfara liðsins en fjöldi lykilmanna glímir við meiðsli og er óvíst með þátttöku nokkurra þeirra í Danmörku.

Ólafur Gústafsson verður ekki með vegna sprungu í annarri ristinni. Hann var ekki með á æfingunni þar sem þetta var staðfest. Hann verður frá í nokkrar vikur og getur því ekki leikið með íslenska landsliðinu á EM.

Markvörðurinn Aron Rafn Eðvarðsson meiddist á tá á æfingu í gær en ætti að vera klár í slaginn fyrir æfingamótið í Þýskalandi eftir áramót.

Aron Pálmarsson var hvergi sjáanlegur og Arnór Atlason, Guðjón Valur Sigurðsson, Vignir Svavarsson, Sverre Jakobsson og Arnór Þór Gunnarsson horfðu allir á æfinguna milli þess sem Elís Þór Rafnsson sjúkraþjálfari landsliðsins hugaði að og meðhöndlaði meiðsli þeirra.

Það er ekki hægt að segja að það sé æskilegur undirbúningur fyrir landsliðið að svona marga lykilmenn vanti í liðið því auk þeirra gaf Alexander Petersson ekki kost á sér vegna meiðsla sinna.

Yngri og óreyndari leikmenn liðsins voru í stærra hlutverki á æfingunni og ljóst að ábyrgðin verður á ungum herðum í Danmörku jafni meiddu leikmennirnir sig ekki.

Því má þó ekki gleyma að enn er mikil reynsla í liðinu þó þessa leikmenn vanti og ekki er útilokað að fjöldi þeirra meiddu verði klár í slaginn þegar flautað verður til leiks í Danmörku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×