Innlent

Fjöldi fólks fékk tölvupóst frá húð og kyn vegna bilunar í pósthólfi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Í tölvupóstinum var talað um að haft yrði samband þegar niðurstöður úr blóð- og þvagrannsóknum væru komnar og hversu langan tíma það tæki að fá þær niðurstöður.
Í tölvupóstinum var talað um að haft yrði samband þegar niðurstöður úr blóð- og þvagrannsóknum væru komnar og hversu langan tíma það tæki að fá þær niðurstöður. Fréttablaðið/Anton
Bilun varð í pósthólfi húð-og kynsjúkdómadeildar í morgun sem varð til þess að fjöldi fólks fékk tölvupóst frá deildinni þar sem kom fram að fyrirspurn þeirra hefði verið móttekin.

Í póstinum var síðan talað um að haft yrði samband þegar niðurstöður úr blóð- og þvagrannsóknum væru komnar og hversu langan tíma það tæki að fá þær niðurstöður, samkvæmt upplýsingum frá Guðnýju Helgu Herbertsdóttur, deildarstjóra samskiptadeildar Landspítalans.

„Þetta var sjálfvirkt svar sem var sent á alla þá sem áður höfðu sent póst á sérstakt netfang húð-og kynsjúkdómadeildar þangað sem hægt er að beina fyrirspurnum til deildarinnar,“ segir Guðný Helga.

Engar persónugreinanlegar upplýsingar fóru út í tölvupóstunum að sögn Guðnýjar Helgu enda segir hún að engar slíkar upplýsingar frá húð-og kynsjúkdómadeild séu sendar með tölvupóstum. Hún kveðst ekki hafa upplýsingar að svo stöddu hversu margir fengu tölvupóstinn þar sem enn eigi eftir að fara yfir það hjá tölvudeild spítalans.

Guðný Helga segist enn ekki vitað hvað olli biluninni.

„Við förum bara að sjálfsögðu í það núna að skoða hvað fór úrskeiðis til að koma í veg fyrir að svona gerist aftur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×