Innlent

Fjögurra ára nauðgunardómur ómerktur í Hæstarétti

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hæstiréttur hefur ómerkt fjögurra fangelsisdóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir karlmanni sem sakfelldur var fyrir nauðgun í júní í fyrra.
Hæstiréttur hefur ómerkt fjögurra fangelsisdóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir karlmanni sem sakfelldur var fyrir nauðgun í júní í fyrra. Vísir/Getty
Hæstiréttur hefur ómerkt fjögurra ára fangelsisdóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir karlmanni sem sakfelldur var fyrir nauðgun í júní í fyrra.

Dómurinn er ómerktur vegna þess að um tvo ákæruliði var að ræða þar sem lýst var ólíkri háttsemi. Hæstiréttur telur að héraðsdómur hefði átt að taka hvorn ákæruliðinn fyrir sig til sjálfstæðrar úrlausnar en það var ekki gert.

Héraðsdómur steypti röksemdum fyrir sekt mannsins saman „án þess að rakinn væri framburður ákærða og vitna og gerð grein fyrir öðrum sönnunargögnum varðandi hvorn ákærulið fyrir sig og án þess að brotin hefðu hvort fyrir sig verið heimfært til þeirra hegningarlagaákvæða sem í ákæru greindi“, eins og segir í dómi Hæstaréttar.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að brot mannsins hafi verið framin á sitthvorum staðnum og að nokkur tími hafi liðið á milli þeirra.

Manninum var annars vegar gefið að sök að hafa í mars 2013 káfað á brjóstum og kynfærum konunnar og látið hana sjúga á sér kynfærin. Hins vegar var maðurinn sakaður um að hafa síðar sömu nótt stungið fingri í leggöng konunnar, beitt hana ofbeldi og hótunum og notfært sér líkamlega yfirburði til að halda henni fastri. Þá hafi hann afklætt konuna að neðan, glennt fætur hennar í sundur og haft við hana samræði.

Ljóst er að málið þarf nú að fara aftur heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×