Innlent

Finnar jákvæðir en Svíar ekki ákveðnir

Loftrýmisgæsla Íslands verður rædd á fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna í lok mánaðarins. fréttablaðið/gva
Loftrýmisgæsla Íslands verður rædd á fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna í lok mánaðarins. fréttablaðið/gva
Finnar eru mjög jákvæðir fyrir því að stunda loftrýmisgæslu á Íslandi í samstarfi við Svía og Norðmenn. Þeir bíða hins vegar eftir ákvörðun Svía um málið.

Sameiginleg loftrýmisgæsla þessara ríkja verður rædd á fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna í tengslum við Norðurlandaráðsfund um næstu mánaðamót, segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra. Hann segir ekkert endanlega ákveðið um málið. "Þetta hefur verið rætt nokkrum sinnum á utanríkisráðherrafundum Norðurlandanna og svo hafa Finnar og Svíar lýst því yfir að þeir séu jákvæðir gagnvart þessu og séu að velta því fyrir sér með hvaða hætti væri hægt að koma því við. Svo ég viti þá er ekki endanleg afstaða hjá Svíum komin fram," segir Össur.

Norrænu ríkin myndu ekki hefja loftrýmisgæslu fyrr en árið 2014. Það verður þá í fyrsta skipti sem Finnar og Svíar taka virkan þátt í hernaðarsamstarfi í Nató-ríki, segir í umfjöllun Aftenposten um málið, þótt ríkin þrjú hafi staðið sameiginlega að flugæfingum í norðurhluta ríkjanna.

Það var Thorvald Stoltenberg, fyrrverandi utanríkis- og varnarmálaráðherra Noregs, sem gerði skýrslu um utanríkis- og öryggismál árið 2009 þar sem þetta var meðal tillagna. - þeb



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×