Handbolti

Fimmti sigur Svía í jafnmörgum leikjum undir stjórn Kristjáns

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jesper Konradsson brýst í gegnum vörn Síle.
Jesper Konradsson brýst í gegnum vörn Síle. vísir/epa
Lærisveinar Kristjáns Andréssonar í sænska karlalandsliðinu í handbolta fara væntanlega fullir sjálfstrausts á HM í Frakklandi sem hefst á miðvikudaginn.

Svíar rúlluðu yfir Síle, 38-21, í síðasta vináttulandsleiknum fyrir HM í kvöld. Leikið var í Malmö.

Í síðustu viku vann Svíþjóð tvo sigra á Noregi og sænska liðið vann því alla þrjá vináttulandsleiki sína í aðdraganda HM. Raunar hafa Svíar unnið alla fimm leiki sína síðan Kristján var ráðinn þjálfari liðsins síðasta haust.

Svíar voru miklu sterkari aðilinn í leik kvöldsins og staðan í hálfleik var 18-10. Í seinni hálfleik breikkaði bilið enn frekar og þegar lokaflautið gall var munurinn 17 mörk, 38-21.

Simon Jeppsson, Niclas Ekberg, Jesper Konradsson, Emil Frend Öfors, Albin Lagergren og Mattias Zachrisson skoruðu allir fjögur mörk fyrir sænska liðið í leiknum í kvöld.

Svíar eru í D-riðli á HM ásamt Dönum, Egyptum, Argentínumönnum, Bareinum og Katörum. Fyrsti leikur sænska liðsins er gegn Barein á föstudaginn.


Tengdar fréttir

Svíar völtuðu yfir Norðmenn

Lærisveinar Kristjáns Andréssonar í sænska landsliðinu lentu ekki í neinum vandræðum með Norðmenn í Jönköping í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×