Körfubolti

Fimm íslenskir stjörnuleikmenn á Norðurlandamótinu í ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Sveinsson og Sigvaldi Eggertsson voru báðir valdir í úrvalslið sextán ára drengja á NM 2016.
Arnór Sveinsson og Sigvaldi Eggertsson voru báðir valdir í úrvalslið sextán ára drengja á NM 2016. Mynd/KKÍ
Ísland átti fimm leikmenn af tuttugu í úrvalsliðum Norðurlandamóts unglinga í körfubolta í ár eða 25 prósent leikmanna sem sköruðu framúr.

Flestir stjörnuleikmenn komu úr sextán ára landsliði karla sem lenti þó bara í fimmta sæti á mótinu. Hin þrjú liðin áttu síðan einn fulltrúa hvert.

Leikmennirnir sem komust í úrvalsliðinu voru eftirtaldir:  Birna Valgerður Benónýsdóttir í sextán ára liði stúlkna, Sigvaldi Eggertsson í sextán ára liði drengja, Arnór Sveinsson í sextán ára liði drengja, Sylvía Rún Hálfdanardóttir í átján ára liði stúlkna og Þórir Guðmundur Þorbjarnarson í átján ára liði drengja.

Þórir Guðmundur Þorbjarnarson kemur úr KR en hann hjálpaði 18 ára landsliðinu að vinna Norðurlandameistaratitilinn. Þórir var með 33 stig í úrslitaleiknum en hann var stigahæsti leikmaður mótsins með 20,0 stig í leik auk þess að taka 6,6 fráköst og gefa 2,6 stoðsendingar að meðaltali.

Sylvía Rún Hálfdanardóttir kemur úr Haukum en hún hjálpaði 18 ára landsliði kvenna að vinna bronsið á Norðurlandamótinu. Hún tók flest fráköst á mótinu, 9,2 í leik, auk þess að skora 16,6 stig og stela 3,6 boltum að meðaltali.

Birna Valgerður Benónýsdóttir kemur úr Keflavík en hún og stelpurnar í sextán ára landsliðinu enduðu í fjórða sætinu. Birna var í öðru sæti bæði í stigum (17,4 í leik) og fráköstum (10,0 í leik).

Arnór Sveinsson kemur úr Keflavík og Sigvaldi Eggertsson kemur úr ÍR. Þeir urðu í fimmta sæti með sextán liði stráka.

Arnór Sveinsson var stigahæsti maður mótsins með 19.0 stig í leik auk þess að taka 5,8 fráköst og skora 2,2 þrista í leik. Arnór skoraði meðal annars 38 stig í 28 stiga sigri á Svíum og var með yfir 30 stig að meðaltali í sigurleikjum íslenska liðsins.

Sigvaldi Eggertsson var með 15,4 stig og 6,0 fráköst að meðaltali og í öðru sæti í framlagi með 13,8 framlagsstig í leik. Sigvaldi var með yfir einn í öllum tölfræðiþáttum þar á meðal stolnum boltum, vörðum skotum, stoðsendingum og þriggja stiga körfum.

Allur íslenski hópurinn á NM 2016.Mynd/KKÍ



Fleiri fréttir

Sjá meira


×