Innlent

Ferðamenn vilja komast nær Bárðarbungu

Erla Björg skrifar
Meðlimir Dalbjargar við afleggjarann að Gæsavatnaleið.
Meðlimir Dalbjargar við afleggjarann að Gæsavatnaleið. vísir/Vilhelm
Síðustu fjóra daga hefur hjálparsveitin Dalbjörg í Eyjafirði staðið vaktina við afleggjarann að Gæsavatnaleið. Vegurinn nær alveg undir jökul og er einungis 30 kílómetrar að Bárðarbungu í beinni loftlínu frá afleggjaranum.

Lokun á veginum er vel merkt og keðja fyrir en samt sem áður er talið nauðsynlegt að menn vakti svæðið.

„Það er ótrúlegt hvað fólk er óforskammað. Bara núna síðustu nótt þurftum við að stoppa erlendan ferðamann sem var staðráðinn í að fara veginn, sama hvað,“ segir Jóhann Jóhannesson, björgunarsveitarmaður. „Við sofum því á vöktum því við treystum því engan veginn að fólk virði lokunina, ekki einu sinni þótt bíllinn sé hér fyrir.“

Þegar blaðamaður kom að í gærkvöldi var hugguleg útilegustemning við bílinn. Hópurinn var nýbúinn að grilla sér steikur í kvöldmat og sátu á tjaldstólum í hring. Það var þó eingöngu tveggja stiga hiti og ískalt rok. „Já, ég held við tjöldum ekki úti í nótt heldur sofum í bílnum. Það er að verða ansi kalt,“ segir Jóhann.

Staðan verður metin seinna í dag og ákveðið hvort óhætt verði að kalla björgunarsveitarliðið heim. Eins og hjá öðrum á svæðinu snýst dagurinn því fyrst og fremst um bið eftir fréttum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×