Innlent

Ferðafólk frá Singapúr aldrei lent í öðru eins óveðri

Mynd úr safni

Sem stendur er afar mikið að gera hjá björgunarsveitum á Suðunesjum og veður þar kolvitlaust. Á Austurgötu er þak að fara af húsi í heilu lagi og mun Hafnargatan væntanlega lokast innan nokkurra mínútna. Ægisgatan hefur verið lokuð í morgun vegna vatns sem hefur safnast þar.

Í Hveragerði losnuðu þakplötur af hesthúsi og tunnur fuku, á Blönduósi og Akureyri aðstoðuðu björgunarsveitir heilbrigðisstarfsfólk í og úr vinnu og bæjarbúar á Akureyri aðstoðaðir í ófærð innanbæjar.

Ferðafólk frá Singapúr situr fast í bílaleigubíl

Einnig hafa sveitir á Hofsósi, Akranesi, Árborg, Húsavík og Hvammstanga sinnt ýmsum verkefnum. Þessa stundina eru Húnar frá Hvammstanga að sækja ferðafólk frá Singapúr sem situr fast í bílaleigubíl við Efra Vatnshorn. Hefur það aldrei lent í öðru eins veðri.

Þetta er haft eftir upplýsingafulltrúa Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að enn sé mjög slæmt veður um mest allt land.

Það er óveður undir Eyjafjöllum, við Markarfljót og Ingólfsfjall, á Hellisheiði og í Þrengslum.

Hættuminna að aka eftir Austur-Landeyjavegi

Fólki sem er á leiðinni í og úr Herjólfi er ráðlagt að aka eftir Austur-Landeyja vegi að Bakkaflugvelli og þaðan í Landeyjahöfn. Gríðarhvasst er á Landeyjahafnarvegi og mikið sandfok og hætta á skemmdum á bifreiðum. Talið er hættuminna að aka eftir Austur-Landeyjavegi og að Landeyjahöfn.

Óveður er á Kjalarnesi, við Akrafjall og eins á sunnanverðu Snæfellsnesi en stórhríð í ofenverðum Borgarfirði og í Dölum.

Það eru hálkublettir á Kleifaheiði, Mikladal og Hálfdáni. Á Vestfjörðum er þó víðast hvar beðið með mokstur vegna veðurs.

Á Norðurlandi má heita að allsstaðar sé stórhríð og ekkert ferðaveður. Þar er beðið átekta með mokstur.

Á Austurlandi er óveður á Vopnafjarðarheiði og stórhríð á Jökuldal, Fjarðarheiði og Skriðdal. Það er snjóþekja og skafrenningur á Fagradal en þungfært á Oddsskarði. - Mokstur er hafinn á Vatnsskarði eystra.

Á Suðausturlandi eru vegir auðir vestan Hafnar en það er óveður við Lómagnúp og á Mýrdalssandi.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×