Körfubolti

Fékk þrjár villur á 22 sekúndum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hamid Dicko.
Hamid Dicko. Vísir/Stefán
Leikur ÍR og Stjörnunnar í Domino's-deild karla í kvöld var æsispennandi en honum lyktaði með eins stigs sigri Garðbæinga eftir lygilega lokamínútu.

ÍR-ingar nutu þó ekki liðskrafta Hamid Dicko í kvöld nema í mjög litlum mæli en Dicko var kominn í mikil villuvandræði strax í fyrsta leikhluta.

Þegar tæpar átta mínútur voru liðnar af leiknum fékk Dicko sína fyrstu villu fyrir að brjóta á Justin Shouse. Hann upplifði svo ótrúlegar 22 sekúndur á lokamínútu leikhlutans.

Það hófst með því að hann fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu fyrir að brjóta á Marvin Valdimarssyni. Skömmu síðar komst ÍR í sókn, eftir að Dicko stal boltanum, en aftur fékk Dicko dæmda á sig villu (í þetta sinn sóknarvillu) og enn eftir viðskipti sín við Marvin.

Dicko var ekki ánægður með þessa ákvörðun dómaratríósins og lét þá skoðun sína í ljós. Fyrir það fékk hann tæknivillu og þar með hans fjórðu villu í leiknum.

Dicko kom aftur inn á í lok þriðja leikhluta og spilaði í rúmar fimm mínútur. Hann skoraði þá sína einu körfu í leiknum en var svo tekinn af velli og kom ekkert meira við sögu.

„Ég náði ekki einu sinni að fylgjast með því sem hafði gerst,“ sagði Bjarni Magnússon, þjálfari ÍR, um lokamínútu fyrsta leikhlutans.

„Heilt yfir fannst mér dómararnir vera með fína línu í leiknum. En ég veit hreinlega ekki hvað var í gangi - hann klappaði víst fyrir dómurunum og það má ekki. Ég held að hann viti upp á sig sökina sjálfur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×