Sport

Fékk þriggja ára bann fyrir þessa ruddatæklingu á kvenkynsdómara | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Samsett mynd
Bruno Andres Doglioli, fyrirliði ítalska liðsins Rangers Rugby Vicenza, má ekki stunda sína íþrótt næstu þrjú árin og það þarf ekki að koma neitt á óvart eftir að fólk sér myndband af ruddabroti hans.

Bruno Andres Doglioli var að spila með liði sínu þegar hann af óskiljanlegum ástæðum ákvað að keyra einn dómarann niður. Doglioli er fyrirliði síns liðs og hlýtur að hafa verið ósáttur við dómara leiksins ef við reyndum að finna einhverja ástæðu fyrir þessari hegðun hans.

Dómarinn óheppni var hin 23 ára gamla Maria Beatrice Benvenuti, sem brákaðist á hálsi eftir að höfuð hennar slóst aftur og síðan fram.  

Doglioli keyrði aftan í bakið á henni og hún sá hann aldrei koma. Þrátt fyrir mikið högg þá harkaði Benvenuti af sér, stóð upp og kláraði leikinn sem er mögnuð staðreynd þegar menn skoða betur höggið sem hún fékk.

Doglioli fékk aðeins gult spjald fyrir þessa ruddatæklingu og kláraði leikinn eins og dómarinn. Mál hans lenti aftur á móti inn á borði aganefndar ítalska sambandsins og þar var honum engin vægð sýnd.

Þetta er harðasti dómur sem rugby-leikmaður hefur fengið í tuttugu ár en hinn 33 ára gamli Bruno Andres Doglioli var einnig settur í bann hjá sínu félagi.

Það er hægt að sjá myndband af ruddatæklingu Doglioli með því að smella á grein The Independent Online eða hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×