Enski boltinn

Fékk risasamning hjá íslenskum eigendum West Ham en er gjaldþrota

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Neill með stjóranum Alan Curbishley í janúar 2007.
Neill með stjóranum Alan Curbishley í janúar 2007. Vísir/Getty
Lucas Neill hefur verið lýstur gjaldþrota í Bretlandi samkvæmt breskum fjölmiðlum eftir misheppnaðar fjárfestingar síðustu árin.

Neill er 38 ára og spilað síðast með Watford og Doncaster Rovers árið 2014 en þekktastur er hann fyrir árin sem hann spilaði með Blackburn og West Ham.

Samkvæmt breskum fjölmiðlum þénaði hann alls 40 milljónir punda á ferlinum en stór hluti þess, um 7,2 milljónir punda, kom frá West Ham þar sem hann var í tvö og hálft ár.

Sjá einnig: Eggert greiddi umboðsmanni Lucas Neill 165 milljónir króna

Frægt er þegar Neill hætti við að semja við Liverpool og gekk þess í stað við West Ham árið 2007 þar sem hann fékk ofurlaun hjá íslenskum eigendum félagsins.

Eggert Magnússon var stjórnarformaður West Ham á þeim árum og Björgólfur Guðmundsson aðaleigandi og heiðursforseti.

Talið er að Neill hafi fengið um 60 þúsund punda í vikulaun en þrátt fyrir að hafa þénað afar vel fór Ástralinn illa með peninga sína og stendur nú eftir gjaldþrota.

Enn liggur ekki fyrir hversu mikið tap hans er en það kemur betur í ljós á næstu vikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×