Erlent

Fékk nóg af erlendum svindlurum: Heldur þeim í símanum eins lengi og hún getur

Atli Ísleifsson skrifar
Tove Kjær-Hansen segir að metið sitt sé að halda svindlaranum í símanum í eina klukkustund og sextán mínútur.
Tove Kjær-Hansen segir að metið sitt sé að halda svindlaranum í símanum í eina klukkustund og sextán mínútur.
72 ára dönsk kona sem segist hafa fengið nóg af símtölum frá erlendum svindlurum hefur nú gripið til sinna ráða og reynir nú að halda þeim í símanum eins lengi og hún mögulega getur.

Tove Kjær-Hansen segist í samtali við danska ríkissjónvarpið hafa um margra ára skeið lagt á þegar enskumælandi menn hafi hringt og sagst vera frá Microsoft og reynt að komast í einkabanka hennar til að hafa af henni fé.

Eftir að hafa fengið um hundrað símtöl var henni hins vegar nóg boðið. „Ég hugsaði að fyrst ég er með þá á línunni þá geta þeir í það minnsta ekki svindlað á öðrum eldri borgurum.“

Því hafi hún reynt að halda þeim í símanum eins lengi og hún mögulega getur. Hún segist segja þeim að þetta sé gömul tölva og spyr hvort þeir hafi tíma til að bíða á meðan hún ræsist. Það vilji þeir alltaf, en á meðan fer hún hins vegar að gera allt aðra hluti – til dæmis lesa blöðin eða leysa su doku.

Kjær-Hansen segir að metið sitt sé að halda svindlaranum í símanum í eina klukkustund og sextán mínútur.

Sjá má viðtal danska ríkissjónvarpsins við Kjær-Hansen að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×