Innlent

Fékk ekki VIP-meðferð og slasaði mann með glerflösku

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Maðurinn var ósáttur við að fá ekki að fara fram fyrir röðina, strunsaði í burtu, reyndi að fara yfir keðjur utan við skemmtistaðinn en datt um þær. Gekk hann nokkur skref til viðbótar áður en hann kastaði glerflösku í áttina að inngangi staðarins.
Maðurinn var ósáttur við að fá ekki að fara fram fyrir röðina, strunsaði í burtu, reyndi að fara yfir keðjur utan við skemmtistaðinn en datt um þær. Gekk hann nokkur skref til viðbótar áður en hann kastaði glerflösku í áttina að inngangi staðarins. Vísir/Anton
Hæstiréttur hefur staðfest átta mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm yfir 36 ára gömlum karlmanni fyrir að hafa kastað glerflösku í höfuð manns sem stóð í röð fyrir utan skemmtistaðinn Loftið í Austurstræti. Maðurinn hlaut brot á ennisbeini, hringlaga skurð á enni, glóðurauga á báðum augum auk þess sem hann fann fyrir svima og sjóntruflunum. Var hann frá vinnu í lengri tíma eftir atvikið. Hæstiréttur lækkaði miskabætur mannsins úr 1,5 milljón í eina milljóna króna.

Atvikið gerðist aðfaranótt föstudagsins 4. maí 2013 þar sem dæmdi óskaði eftir því að fá að fara fram fyrir röðina á Loftinu ásamt unnustu sinni og vini. Dyraverðir neituðu og bentu þeim á að fara í röðina. Þótti manninum dyraverðirnir dónalegir og höfðu dyraverðirnir sömu sögu að segja um manninn.

Maðurinn var ósáttur við að fá ekki að fara fram fyrir röðina, strunsaði í burtu, reyndi að fara yfir keðjur utan við skemmtistaðinn en datt um þær. Gekk hann nokkur skref til viðbótar áður en hann kastaði glerflösku í áttina að inngangi staðarins.

Maðurinn hélt því fram að þegar hann missti jafnvægið hefði hann um leið losað sig við glerflöskuna. Hann hefði talið hana hafa farið í jörðina enda hefði hann heyrt brothljóð. Hann hefði ekki orðið var við að nokkur hefði slasast og það hefði ekki verið ætlunarverk hans. Tveir menn hefðu veist að honum í kjölfarið og hann forðað sér ásamt unnustu sinni.

Fólk að skemmta sér í miðbæ Reykjavíkur að næturlagi.Vísir/Kolbeinn Tumi
Flöskunni kastað af afli

Dyraverðir töldu að maðurinn hefði verið að reyna að kasta í áttina að dyraverðinum sem hefði gefið manninum afsvar. Dyravörðunum tókst að beygja sig en sáu svo hvernig blæddi úr andliti manns sem stóð með bakið upp við vegg í röðinni.

Framburður dyravarðanna þótti greinargóður og skýr. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur kemur fram að af áverkum að dæma verði ráðið að flöskunni hafi verið kastað af afli. Ákærða hafi átt að vera ljóst að háttsemi hans var stórhættuleg og líkleg til að valda einhverjum líkamstjóni sem raunin varð.

Var maðurinn dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi til tveggja ára en hann hafði ekki áður hlotið refsingu. Farið var fram á þrjár milljónir í miskabætur en mat héraðsdómur 1,5 milljón krónur hæfilegar bætur. Hæstiréttur staðfesti að öllu leyti dóm í héraði að því frátöldu að miskabætur voru lækkaðar í eina milljón.

Í dómi Hæstaréttar var fundið að því að eftir að ákæruvaldið hefði fengið dómsgerðir málsins frá héraðsdómi hefðu liðið tæpir fimm mánuðir þar til málsgögnin voru afhent Hæstarétti.

Dómurinn í heild sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×