Körfubolti

Fáum vonandi annað tækifæri fljótlega

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Íslandsmeistararnir verða ekki með í Evrópu á næsta ári eins og til stóð .
Íslandsmeistararnir verða ekki með í Evrópu á næsta ári eins og til stóð . Vísir/Auðunn
Böðvar Guðjónsson, varaformaður körfuknattleiksdeildar KR, sagði að sú niðurstaða að KR tæki ekki þátt í Evrópukeppninni að þessu sinni væri óvænt og að vissu leyti svekkjandi. KR stefndi að því að taka þátt í Evrópukeppninni í haust en það hefði verið í fyrsta sinn frá árinu 2007 sem íslenskt lið tæki þátt í keppninni.

„Þegar þessi keppni var kynnt fyrir okkur áttu 64 lið að taka þátt en á síðustu stundu var ákveðið að skera niður í 56 lið. Við úthlutun sæta var síðan farið eftir styrkleikalista og þar kom í bakið á okkur að íslensk lið hafa ekki tekið þátt undanfarin ár. Við fengum einfaldlega ekki sæti að þessu sinni vegna þátttökuleysis íslenskra liða undanfarin ár,“ sagði Böðvar, sem sagðist hafa rætt við formann Körfuknattleikssambands Íslands, Hannes S. Jónsson, um möguleika íslenskra liða á erlendri grundu.

„Ég er búinn að vera í góðu sambandi við Hannes sem er búinn að vera að aðstoða okkur. Þetta mál verður rætt á næsta stjórnarfundi og vonandi gefst íslenskum liðum tækifæri til að taka þátt á næstu árum,“ sagði Böðvar.

Dregur ekki úr aðdráttarafli KR

Böðvar bjóst ekki við að þetta myndi hafa áhrif á leikmannamál en enn er eftir að ganga frá samningi við Michael Craion.

„Þetta dregur að mínu mati ekkert úr því aðdráttarafli sem KR hefur. Árangurinn undanfarin ár hefur verið til fyrirmyndar og hefur þetta verið góður gluggi fyrir erlenda leikmenn að sýna sig ásamt því að vinna titla. Hann bað um samningstilboð sem bíður í höndum hans og ef svo ólíklega vill til að við þurfum að leita að nýjum Kana þá vitum við allavega hvernig leikmann við þurfum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×