Lífið

Fatasnið fyrir fjölbreytta líkama

Frank Lutterlöh kennir sníðagerðina á klukkustund.
Frank Lutterlöh kennir sníðagerðina á klukkustund. Vísir/GVA
Þjóðverjinn Frank Lutterloh er hér á landi á vegum vefnaðarverslunarinnar Virku, til þess að kenna Íslendingum að sníða sér stakk eftir vexti, bókstaflega.

Aðferðin sem hann notar til þess er einstök. „Amma mín fann upp þessa sníðaaðferð árið 1935, en hún er byggð á gullinsniði Leonardo DaVinci um líkamann,“ segir Lutterloh. Hún reiknaði nákvæmlega út stærðir eftir líkamslögun og bjó til sérstakan lista, og út frá honum finnst hárrétt stærð. Teknar eru tvær mælingar, yfir brjóstin og mjaðmirnar og út frá þeim er merkt á sniðið.

„Líkaminn er í hlutföllum við sjálfan sig, og út frá því er hægt að finna nákvæma stærð á fatnaði fyrir þig. Svo er bara að stytta eða lengja eftir hæð,“ segir Lutterloh, en hann fullyrðir að ekki þurfi neina þekkingu á sniðum til þess að taka þátt í námskeiðinu.

„Ég hef verið að kenna þessa aðferð í þrjátíu ár og hún er alltaf jafn vinsæl. Yngri bróðir minn vinnur við að reikna út fyrir ný snið, en allar mælingar eru gerðar í höndunum, ekkert í tölvu,“ bætir hann við.

Námskeiðið er haldið í Virku þrisvar á dag út þessa viku auk tveggja námskeiða á laugardag. Námskeiðið er frítt og með því fylgja þrjú snið, en hægt að er að kaupa fleiri hjá Virku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×