Viðskipti innlent

Fasteignaverð hækkaði mest á Íslandi í fyrra af Evrópuþjóðum

Af 23 Evrópuþjóðum hækkaði verð á fasteignum mest á Íslandi á síðasta ári. Nafnverðshækkunin er meiri hér á landi en í Noregi þar sem mikil fasteignabóla er í gangi.

Þetta kemur fram í umfjöllun Daily Mail um málið sem byggir á úttekt frá Hinni konunglegu stofnun löggildra eftirlitsmanna. Þar segir að fasteignaverð hafi hækkað mest eða um 10% á Íslandi á síðasta ári.

Næst á eftir kemur Noregur með tæplega 10% hækkun og í þriðja sæti er Frakkland með um 7% hækkun. Í þessu sambandi má nefna að Norðmenn hafa töluverðar áhyggjur af þeirri fasteignabólu sem geisað hefur í Noregi allt síðasta ár.

Fasteignir á Írlandi hröpuðu hinsvegar í verði á síðasta ári og nam nafnverðslækkunin þar 17%. Næst á eftir kemur Spánn þar sem fasteignaverð lækkaði um tæp 10% og í þriðja sætinu er Kýpur með um 8% lækkun.

Fram kemur að það komi verulega á óvart að Ísland skuli vera það land þar sem fasteignaverð hefur hækkað mest á liðnu ári, sérstaklega þegar haft er í huga að fyrir rúmum þremur árum hrundi fjármálakerfi landsins eins og það lagði sig. Sagt er að hækkun fasteignaverðsins á Íslandi sé enn eitt merki þess hve vel landið hefur náð sér á strik eftir hrunið.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×