Körfubolti

Fannar vorkennir Stevens ekki neitt: Drekktu bara meira Magic

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tindastóll hélt lífi í vonum sínum á að komast áfram í undanúrslit Domino's deildar karla með stórsigri, 107-80, á Keflavík á Króknum í gær.

Keflvíkingurinn Amin Stevens var ólíkur sjálfum sér í leiknum og skilaði aðeins sex stigum og 11 fráköstum. Til samanburðar skoraði hann 25 stig og tók 18 fráköst í fyrsta leiknum og skoraði 35 stig og tók 16 fráköst í öðrum leiknum.

Strákarnir í Domino's Körfuboltakvöldi töldu að þreytan hafi farið að segja til sín hjá Stevens sem spilar alla jafna um 40 mínútur í leik.

„Hann spilar mjög mikið og það er eðlilegt að menn séu þreyttir. En menn þurfa að finna leiðir til að jafna sig á milli leikja,“ sagði Jón Halldór Eðvaldsson. Fannar Ólafsson vorkenndi Stevens hins vegar ekki neitt.

„Mér er alveg sama, þetta er úrslitakeppni. Drekktu bara meira Magic. Sorrí, hættu þessu væli.“

Stólarnir voru miklu sterkari í leiknum í gær en Jón Halldór segir að það skipti engu hversu stór sigurinn var.

„Það skiptir engu máli hvort þessi leikur endaði með 30 stigum eða tveimur. Í mörgum seríum Keflavíkur og Njarðvíkur tapaði Keflavík með 40 stigum í Njarðvík og vann svo með 40 stigum á heimavelli,“ sagði Jón Halldór.

„Þetta eru allt bikarleikir. Þú ferð bara í næsta leik til að vinna hann.“

Fjórði leikur liðanna fer fram í Sláthúsinu í Keflavík á morgun og þurfa Stólarnir að vinna til að tryggja sér oddaleik í einvíginu.

Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×