Lífið

Fann kjarkinn til að framkvæma

Tinna Hrafnsdóttir er Reykvíkingur í húð og hár, alin upp í Vesturbænum og gekk í Menntaskólann við Hamrahlíð. Þegar kom að því að velja hvað stæði til næst eftir stúdentsprófin voru góð ráð dýr því Tinna hafði ekki hugmynd um hvað hún vildi verða. „Ég vissi ekkert hvað ég vildi gera en var þó handviss um að ég vildi mennta mig frekar.“

Að lokum ákvað Tinna að skrá sig í lögfræði en komst svo fljótlega að því að það ætti ekki við hana.

„Ég skipti strax um áramótin yfir í almenna bókmenntafræði og þar var ég komin nær því sem mig langaði að fást við í lífinu. Þar var verið að lesa leikrit og greina texta, ég fann að þarna lá einhver taug sem mig langaði til að virkja.“ Í Háskólanum var Tinna hvött til að koma og taka þátt í Stúdentaleikhúsinu. „Ég hafði ekki komið nálægt leiklist á mínum uppvaxtar­árum, það var alltaf verið að spyrja mig hvort ég ætlaði ekki að verða leikkona eins og amma mín, Herdís Þorvaldsdóttir heitin. Við þessar spurningar og saman­burð kom alltaf upp í mér unglingamótþrói og ég ætlaði mér að gera eitthvað allt annað en að feta leiklistarbrautina. Eftir að ég tók svo þátt í Stúdentaleikhúsinu þá fann ég að þarna var ég komin í mitt rétta hlutverk.“

Tinna giftist Sveini Geirssyni fyrir rúmu ári.mynd/einkasafn
Tinna fann á þessum tímapunkti að hún gæti ekki verið lengur í þessari afneitun gagnvart því sem henni var ætlað frá upphafi og sótti um í Leiklistarskóla Íslands.

„Ég laumaðist eiginlega í inntökuprófin því ég sagði engum frá þessum áætlunum mínum nema mömmu, bróður og bestu vinkonu. Ætli ég hafi ekki verið að verja mig fyrir þessum sem þóttust vita hvert leið mín myndi liggja,“ segir hún brosandi.

Tinna komst inn í fyrstu tilraun og fann hvernig ástríðan og metnaðurinn gagnvart leiklistinni jókst samhliða því sem hún sleppti tökunum og tók á móti því sem koma skyldi.

Lífið eftir útskrift

Strax eftir útskrift úr leiklistar­skólanum fékk Tinna nokkur hlutverk hjá sjálfstæðum leikhópum og muna margir eftir henni sem Tóta tannálfi úr barnaleikritinu Benedikt búálfur. „Hann varð afskaplega vinsæll hjá krökkunum enda á tannálfurinn sér tilvist utan leikritsins.“ 

Í kjölfarið tók hún svo þátt í Grease í samstarfi við Borgarleikhúsið og svo lék hún Pöllu peru í Ávaxtakörfunni. „Ég var þakklát fyrir að fá tækifæri strax eftir útskrift og naut þess að vinna með sjálfstæðum leikhópum. Það að komast að hjá Borgarleikhúsinu og Þjóðleikhúsinu reyndist þyngri róður en innst inni í hjartanu þóttist ég vita að tækifærin til að skapa kæmu þegar tíminn væri réttur.“ 

Tinna var þó hvergi af baki dottin og þáði aðal­hlutverk sem henni var boðið í kvikmyndinni Veðramót sem Guðný Halldórsdóttir leikstýrði. Stuttu síðar lék hún svo í sjónvarpsþáttaseríunni Hamrinum undir stjórn Reynis Lyngdal sem sýnd var í Ríkissjónvarpinu. Fyrir bæði þessi hlutverk var hún tilnefnd til Edduverðlauna. 

Samhliða þessum hlutverkum hóf Tinna MBA-nám í Háskólanum í Reykjavík. 

„Það var virkilega fróðlegt og ólíkt öllu sem ég hafði áður gert. Þarna kynntist ég líka mörgu fólki með allt annan bakgrunn en ég sem mér fannst gott og lærdómsríkt, fólki sem ég lærði mikið af og var tilbúið að deila sinni reynslu.“

Fjölskyldulífið skiptir miklu máli í lífi Tinnu Hrafnsdóttur.mynd/einkasafn
Mannlegt að vera ­hræddur

Tinna giftist Sveini Geirssyni fyrir rúmu ári en hann er leikari, nýlega útskrifaður úr Leiðsöguskóla Íslands og ansi lunkinn tónlistarmaður. Þau hjónin eiga gullfallega tvíburasyni sem nú eru á fjórða ári en þeir létu heldur betur bíða eftir sér á sínum tíma.

„Á sama tíma og ég var að reyna að feta mig áfram í leikhúsheiminum vorum við hjónin að reyna að eignast barn en sú barátta stóð yfir í fimm ár. Þörfin fyrir að komast að í leikhúsunum fölnaði í samanburði við þörfina fyrir að eignast barn og þegar það reyndist heldur ekki auðsótt tók það völdin.“ 

Læknarnir gátu aldrei gefið Tinnu útskýringu á ófrjóseminni og stóðu þau frammi fyrir því að orsökin gæti í rauninni legið hvar sem er.

„Ég prófaði nánast allt til að koma mér í lag, jóga, breytt mataræði, nálar­stungur og vítamín. Það komst nánast ekkert annað að. Ég sat svo dögum skipti við tölvuna og reyndi að finna leiðir sem mögulega gætu hjálpað,“ segir Tinna. „Ég hefði kosið að geta vitað hvert meinið væri svo hægt væri að ráðast á það en í mínu tilfelli var það á huldu, allt einhvern veginn kom til greina og gat verið að. Á þessu tímabili efaðist ég mikið. Það sem mig langaði í lífinu reyndist mér erfitt að sækja og ég uppplifði sjálfa mig á einhvern hátt staðnaða eða jafnvel út undan.“

Eftir ítrekaðar tilraunir í glasa- og smásjárfrjóvgun kom loks að því að Tinna varð ólétt.

„Læknirinn sagði mér að ég væri með það há óléttugildi að líklegt væri að ég gengi með tvíbura. Það er erfitt að lýsa með orðum þeirri gleði- og léttistilfinningu þegar svo loksins „já-ið“ kemur, hvað þá tvöfalt, eftir svona langan tíma. Við urðum svo spennt en þorðum samt varla að trúa þessum gleðifréttum. Við keyptum örugglega um tíu óléttupróf, bara til að sjá staðfestinguna aftur og aftur, og öll voru þau með sömu niðurstöðu. Við urðum að fullvissa okkur um að þetta væri rétt og satt. Þetta var stórkostlegt og það besta sem gat komið fyrir okkur.“

Meðgangan gekk að óskum og í heiminn komu tveir fallegir drengir.

„Eftir að þeir fæddust var sem eitthvað gerðist innra með mér, ég náði að sigrast á eigin takmörkunum. Ég fann að þungu fargi hafði verið af mér létt og fylltist áður óþekktri orku og framtaksvilja. Ég fann fyrir sterkri þörf fyrir að leikstýra og allt í einu kjarkinn til að gera hluti sem ég þorði engan veginn að gera áður og hugsaði sem svo að ég hefði hvort eð er engu að tapa ef allt færi á versta veg. Sjálfsmyndin væri ekki í húfi því álit annarra á mér og verkefnum mínum væri ekki það sem skipti mestu máli heldur ástríðan, að hrinda þeim í framkvæmd. Og þora að vera það sem maður er. Óháður samþykki annarra. Gera það sem mann langar til að gera, gefast ekki upp, skapa sín eigin tækifæri. Ef verkefnin mín ganga vel þá er það stórkostlegt en ef ekki þá er það líka í lagi, heimurinn ferst ekki. Ég læri þá bara af því, er að minnsta kosti að reyna, taka þátt, lifa því lífi sem mig langar að lifa.

Í dag er ég þakklát fyrir þessa afstöðu, þakklát fyrir þá reynslu að hafa sigrast á því sem ég óttaðist mest, því þegar móðurhlutverkið var í höfn varð margt annað sem áður var erfitt og ógerlegt svo auðvelt og yfirstíganlegt. Það er samt mannlegt að vera hræddur við útkomuna, hræddur við að mistakast og við álit annarra. Við erum það öll, einhvern tímann. Aðalatriðið er bara að láta ekki stjórnast af því og vera trúr sjálfum sér.“

Leikstjórastóllinn

Tinna setti upp leikritið Útundan þar sem hún nýtti reynslu sína af ófrjósemi í leikstjóra­stólnum.

„Leikritið fjallaði einmitt um þrjú pör sem eru að fást við ófrjósemi og það var svona mín leið sem listamaður að nýta mátt leikhússins til að opna umræðuna. Ég fann hvað þetta var þörf umræða þar sem barnleysi er oft og tíðum mikið feimnis­mál. Ég vildi setja upp þetta verk til að sýna fólki að það stæði ekki eitt í sinni baráttu.“

Eftir það lét Tinna ekkert stöðva sig og hélt áfram að leika og setja upp verk á eigin vegum og í samstarfi við aðra. Í síðustu viku frumsýndi Tinna verkið Lokaæfingu eftir Svövu Jakobsdóttur sem fjallar um eilífa leit mannsins að öryggi í heimi þar sem ekki er allt sem sýnist. Sagan segir frá hjónum sem ákveða að búa til neðanjarðarbyrgi undir heimili sínu sem þau geta leitað í þegar heimurinn ferst. Við þetta vakna ýmsar siðferðislegar spurningar og nálægð þeirra hvort við annað afhjúpar þau.

„Kaldhæðnin í þessu verki er svo sú að það sem þau eru að flýja mætir þeim aldrei sterkar en einmitt þarna niðri í byrginu,“ segir Tinna leyndardómsfull á svip. „Mér finnst margt í þessu leikverki eiga mikið erindi til okkar í dag, að minnsta kosti miðað við þá leið sem ég ákvað að fara að því. Ég stytti verkið töluvert og skilgreini aldrei hvaða alheimsvá það er sem hjónin eru að flýja. Þau eru bara að flýja heimsendi, í hvaða mynd sem hann er. Í dag er svo margt sem ógnar öryggi okkar. Heimsmyndin hefur breyst töluvert frá því að Svava skrifaði verkið en ákveðnir grunnþættir í tilveru okkar sem reyna á okkur sem manneskjur hafa ekkert breyst.“

Nýlega sendi Tinna frá sér stuttmyndina Helgu og eins og önnur verk sem Tinna sendir frá sér hefur myndin mikilvæg skilaboð að geyma.

„Myndin er byggð á sögu konu sem ég þekki og fjallar í stórum dráttum um mikilvægi þess að hlusta. Einhvern tímann heyrði ég að ást væri hlustun og fyrir mér er það algjörlega rétt. Góð hlustun er svo mikilvæg í lífinu, í svo mörgum skilningi.“

Draumur Tinnu er að senda myndina á stuttmynda­hátíðir erlendis og er hún um þessar mundir að vinna í þeim málum. „Ég hef trú á myndinni. Fyrir mér á hún erindi og sagan virðist snerta fólk.“

Þegar litið er á þau verk sem Tinna hefur sent frá sér má sjá rauðan þráð sem tengir þau öll saman, þau koma mikilvægum skilaboðum út í samfélagið og skapa þannig umræðu um málefni sem skipta máli í mannlegum samskiptum. Blaðamaður hefur það á tilfinningunni að þessi orkumikla og eldklára kona sé rétt að byrja, því verður spennandi að fylgjast með verkum Tinnu Hrafnsdóttur í framtíðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×