Lífið

Fallegar neglur sem passa við allt

„Undanfarið hefur ekkert eitt verið meira í tísku en annað. Fólk er bara að fá sér það sem það langar í,“ segir Þórhildur Sólbjørnsdóttir ,nagla- og förðunarfræðingur, spurð út í tískustrauma í nöglum.

„Reyndar má segja að „nude“ sé alltaf sterkt en svo er vinsælt að vera með glimmer eða glingur á baugfingri og margar eru með slíkt á fleiri fingrum. Hjá mér hefur verið vinsælt í meira en ár útlit sem kallast „Baby boomer“ eða „French ombre“ en þá er hvítur litur látinn feida út í „nude“.





Krómneglur hafa verið heitar, bæði silfrað og rósrautt króm og einnig hvítar krómneglur. „French“ er eiginlega alveg dáið út. Vinsælasta lögunin á nöglunum kallast ballerína. Svo eru alltaf einhverjar sem vilja eitthvað verulega krassandi en oftast vilja konur bara fallegar neglur og að þær passi við allt.“

Hvernig er best að hugsa um neglurnar?

„Neglur eru ekki verkfæri og þó þær geti verið mjög sterkar á ekki að nota þær á þann hátt. Þær geta brotnað mjög illa. Naglaböndin þarf að passa vel og bera á þau naglaolíu eða hand­áburð, sérstaklega í hitabreytingum, kulda og þurrki. Það er erfitt að setja neglur fallega á ef naglaböndin eru illa farin og þá geta komið sár og sprungur,“ útskýrir Þórhildur.





Hún segist fá stelpur allt niður í fermingaraldur í neglur til sín en það verði þó að vera með leyfi foreldra. Yfirleitt byrji stelpur í fyrsta bekk í menntaskóla og eftir það verði ekki aftur snúið. Það sé auðvelt að ánetjast fallegum nöglum.

„Ég er með konur yfir sextugt sem koma reglulega í neglur til mín. Það að vera með fallegar neglur gefur mörgum meira sjálfstraust. Stelpur sem vinna til dæmis við afgreiðslustörf minnast gjarnan á þetta. Þær hlakki til að mæta í vinnuna þegar neglurnar eru fallegar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×